Innlent

Frostanótt gerir berin betri

Síðustu nætur hafa verið kaldar á Norður- og Austurlandi og víða í Reykjavík mátti sjá hrímaða palla í gærmorgun. Flest grænmeti sem ræktað er hér á landi þolir þó stöku næturfrost og sammælast garðyrkjufræðingar um að ein og ein frostanótt geti jafnvel gert berjauppskeru betri. Þó er nauðsynlegt að uppskera rótargrænmeti áður en frostið fer að læsast í jörðu.

Magnús Ásgeirsson, garðyrkjuráðunautur hjá Bændasamtökunum, segir sjálfsagt að tína upp allt sem tilbúið er til uppskeru. En óþarfi sé að óttast að stöku næturfrost eyðileggi uppskeru haustsins, nema þau verði tíð og mikil. Hann segir tíðarfar síðustu ára hafa verið óvenjulegt.

„Í Þykkvabænum var alltaf talað um að 13. september væri hættan á næturfrostum orðin veruleg, en það hefur breyst," segir hann. „Þau eru farin að koma fyrr. Öfgarnar eru orðnar meiri í veðurfarinu." Hann bendir á að með því fái plönturnar styttri tíma til að þroskast, en aftur á móti gera sólrík sumur eins og í ár það að verkum að gróðurinn vex mun hraðar.

Kristín Hermannsdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir ekki fátítt að byrji að frysta í lok ágúst.

Hins vegar hafi þurrkar sumarsins gert það að verkum að uppskerubrestur geti orðið meiri hjá bændum en ella. Þá hafi liðið nokkur ár síðan það tók að frysta svona snemma, þar sem síðustu haust hafa verið tiltölulega hlý.

Hún segir heitari tölur í kortunum fyrir helgina og næstu viku. „Það verður hiti bæði á degi og nóttu, svo hættan er frá í bili," segir Kristín.

sunna@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×