Innlent

Íbúar eins og fangar á lyftulausu heimili

Föst heima Hrafnhildur kemst ekki út úr húsi af því að hún getur ekki notað stiga. Lyftubilunin kemur sér mjög illa fyrir hana sem og marga aðra íbúa hússins.
fréttablaðið/vilhelm
Föst heima Hrafnhildur kemst ekki út úr húsi af því að hún getur ekki notað stiga. Lyftubilunin kemur sér mjög illa fyrir hana sem og marga aðra íbúa hússins. fréttablaðið/vilhelm
Íbúar í þjónustuíbúðum aldraðra komast ekki út úr húsi því eina lyfta hússins hefur verið biluð síðan á mánudag. „Það eru svo margir sem ekki geta farið stiga," segir Hrafnhildur Thors, fyrrverandi húsmóðir og 92 ára gamall íbúi í þjónustuíbúð Sunnuhlíðar við Kópavogsbraut 1A. Hún hefur búið í húsinu í rúmlega tíu ár og verður 93 ára gömul í september.

„Fólkinu finnst það vera eins og fangar þegar eitthvað svona kemur upp á," segir Hrafnhildur. Íbúar hússins vita ekki hversu lengi þeir þurfa að bíða eftir því að lyftan verði lagfærð, en húsvörður vonast til að lyftan komist í lag í dag. Langflestir íbúanna eiga allt undir því að komast niður í lyftu.

Hrafnhildur er reið yfir því að á mánudag ætlaði hún að hitta ættingja sinn sem hafði misst ástvin. Hún komst hins vegar ekki út úr húsi því hún á orðið erfitt með gang og leggur ekki í stigana.

„Ég borga mikið af peningum á mánuði í húsgjöld og er því mjög svekkt. Svo er ég nú orðin svo fullorðin að ég treysti mér ekki til þess að flytja héðan, það er ekki nokkur leið. Ég veit að ég gæti verið á góðum stað þar sem ég get verið á fyrstu hæð. En ég er ákaflega ánægð hérna og ég vil alls ekki flytja. Mér finnst þetta hins vegar ekki hægt."

Þær upplýsingar fengust frá húsverði á Kópavogsbraut 1A að unnið sé að viðgerð á lyftunni. Viðgerðin sé tímafrek því mótor hafi brunnið yfir. Það er hins vegar vonast til þess að lyftan komist í lag í dag. Þá sé reynt að veita venjubundna þjónustu hússins þó lyftan sé biluð. Því sé matur borinn upp til þeirra sem þess óska.

Hrafnhildur er þeirrar skoðunar að lyftur í svona húsum eigi ekki að vera bilaðar. Tvær eigi að vera í húsinu til að gulltryggja aðgengið. „Hver ber ábyrgð á því að hafa svona stórt hús með aðeins eina lyftu?" spyr hún.

birgirh@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×