Fastir pennar

Ógn við tjáningarfrelsið

Steinunn Stefánsdóttir skrifar

Um allan heim safnaðist fólk saman á föstudag til að mótmæla tveggja ára fangelsisdómi yfir þremur meðlimum pönksveitarinnar Pussy Riot. Konurnar þrjár eru dæmdar fyrir óspektir á grunni trúarhaturs en glæpur þeirra fólst í mótmælagjörningi sem fram fór í dómkirkju Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar í Moskvu í aðdraganda forsetakosninganna í Rússlandi í vetur.



Í gjörningnum biðlaði sveitin í söng til Maríu meyjar um að hrekja Pútín á brott. Tilgangurinn með því að staðsetja gjörninginn í kirkjunni var augljóslega sá að gagnrýna stuðning framámanna rétttrúnaðarkirkjunnar við Pútín.



Dómurinn yfir konunum í Pussy Riot hefur vakið óhug og hafa bæði stjórnmálaleiðtogar og mannréttindafrömuðir fordæmt hann. Mannréttindasamtökin Amnesty International eru þar á meðal en samtökin líta á konurnar sem samviskufanga sem hafa verið lokaðir inni fyrir friðsamlega tjáningu á skoðunum sínum.



Og það er auðvitað kjarni málsins að gjörningur Pussy Riot í kirkjunni var friðsamlegur. Í honum var ekki beitt ofbeldi á nokkurn hátt. Gjörningnum var hins vegar ætlað að hneyksla og það tókst.



Ungt róttækt fólk fer ýmsar leiðir til þess að mótmæla ríkjandi valdakerfi og ýta við almennu gildismati. Þannig hefur það alltaf verið. Það storkar með því að fara út fyrir þá ramma sem fólk setur sér alla jafna. Þess háttar ögranir eru óaðskiljanlegur hluti þess að búa í lýðræðissamfélagi þar sem tjáningarfrelsi er virt. Slíkir gjörningar geta og eiga að koma við þá sem eldri eru og/eða hófsamari. Það væri enda til lítils að ögra ef engum væri ögrað. Í ögrandi gjörningum er fólgið hreyfiafl sem ekkert lifandi samfélag vill vera án. Samfélag sem líður ekki slíka gjörninga er samfélag stöðnunar.



Borgarar í lýðræðisríkjum eiga að geta hneykslað, vakið reiði og móðgað valdhafa án þess að eiga á hættu að vera dæmdir til fangelsisvistar. Markmið dómsins yfir konunum í Pussy Riot er meðal annars að draga tennurnar úr þeim sem vilja sýna andstöðu við valdhafa í Rússlandi. Hann er birtingarmynd skoðanakúgunar sem brýtur á tjáningarfrelsi þeirra.



Það er afar mikilvægt að leiðtogar lýðræðisríkja taki höndum saman og fordæmi dóminn yfir konunum þremur úr Pussy Riot og sýni rússneskum yfirvöldum að virðingarleysi þeirra fyrir tjáningarfrelsinu verði ekki liðið. Að sama skapi fela slíkar yfirlýsingar í sér viðurkenningu á því að í þeirra ríkjum séu svona gjörningar virtir, jafnvel þótt valdhöfum líki þeir ekki endilega, vegna þess að tjáningarfrelsi telst til grundvallarmannréttinda.

Það er gríðarlega mikilvægt að ótti við fangelsisvist komi ekki í veg fyrir að ungt fólk, hvort sem um er að ræða listamenn eða aðra borgara sem vilja tjá sig með ögrandi hætti, tjái sig hver með sínu nefi og þá stundum þannig að einhverjum sé misboðið, jafnvel stjórnvöldum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×