Innlent

Lágmark að halda illgresi í skefjum

Umferðareyja í Lönguhlíð Óræktin virðist víða vera að ná undirtökunum á opnum svæðum í borgarlandinu.Fréttablaðið/Ernir
Umferðareyja í Lönguhlíð Óræktin virðist víða vera að ná undirtökunum á opnum svæðum í borgarlandinu.Fréttablaðið/Ernir
„Það er lágmarkskrafa að sá meirihluti sem hér er við völd standi undir því einfalda verkefni að láta slá græn svæði í borginni og halda illgresi í skefjum," segir í bókun sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram á borgarráðsfundi í gær.

Sjálfstæðismenn sögðu grasslátt og almenna umhirðu á opnum grænum svæðum og við umferðargötur í borginni langt frá því að vera viðunandi. Lögðu þeir til að strax yrði gert átak í því að koma þessum málum í betra horf.

„Ástandið er hreinlega ekki boðlegt. Borgarbúar sinna sínu nærumhverfi en borgin, sem alltaf hefur verið til fyrirmyndar, er nú orðin að slugsara. Það gengur ekki og þess vegna lögðum við fram tillögu um að gert yrði strax átak í þessum málum," sögðu sjálfstæðismenn sem kváðu augljóst að betur væri staðið að þessum málum í nærliggjandi sveitarfélögum. „Nú er svo komið að víða í borginni er arfi, úr sér vaxið gras og almenn óhirða orðin svo áberandi að ásýnd borgarinnar líður verulega fyrir."

Afgreiðslu tillögunnar var frestað í borgarráði í gær.- gar



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×