Erlent

Níu látnir eftir snjóflóð í Ölpunum

Komið með fórnarlömb Leitarmenn fundu níu látna í fjallinu í gær, en einnig voru ellefu fluttir á sjúkrahús. fréttablaðið/ap
Komið með fórnarlömb Leitarmenn fundu níu látna í fjallinu í gær, en einnig voru ellefu fluttir á sjúkrahús. fréttablaðið/ap
Níu eru látnir eftir að snjóflóð féll í Mont Blanc í frönsku Ölpunum í gær. Ellefu slösuðust og fjögurra var enn saknað í gærkvöldi.

Flóðið varð snemma í gærmorgun, þegar hópur fjallgöngumanna var á ferð þar. Talið er að fjallgöngumaður hafi valdið því að flóðið fór af stað, en nokkrir náðu að komast undan því. Mikið hafði snjóað við vinsælar gönguleiðir í kringum Mont Blanc í illviðri fyrr í sumar. Yfirvöld á staðnum höfðu varað göngumenn við því að óvenjulega mikið hefði snjóað þar í vor.

Þrír Bretar, þrír Þjóðverjar, tveir Spánverjar og einn Svisslendingur létust í fjallinu, að sögn yfirvalda í fjallabænum Chamonix. Fólkið var allt vant fjallgöngum.

Innanríkisráðherra Frakklands, Manuel Valls, flaug yfir svæðið seint í gær. Hann sagði snjóþungann hafa gert leitarmönnum erfitt fyrir, en leit að hinum týndu var hætt í gærkvöldi vegna veðurs. Leitinni verður haldið áfram í dag. - þeb



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×