Fastir pennar

Bylting?

Þorsteinn Pálsson skrifar
Forseti Íslands taldi að kosningarnar bæru vott um vitræna umræðu þjóðarinnar um stjórnskipunarmál og staðfestu stuðning fólksins við lýðræðisbyltingu hans sjálfs. Þessi staðhæfing er úr lausu lofti gripin. Sú umræða fór aldrei fram. Fremur má segja að frambjóðendurnir hafi í misjafnlega ríkum mæli gefið kjósendum villandi mynd af völdum forsetans. Það var ekkert sérlega vitrænt í því.

Það sem gerðist var að forsetinn sneri vörn í sókn gegn frambjóðendum sem áttu lítið erindi með því fyrst og fremst að gera meira úr áhrifum synjunarvaldsins en efni standa til. Það tókst.

Þjóðin snerist gegn öllum tilraunum til að semja um lausn Icesave-deilunnar. Forsetinn hagnýtti sér það og sendi tvenn Icesave-lög í þjóðaratkvæði. Fyrir það þökkuðu margir sem voru bæði ósáttir við ríkisstjórnina og aðild forystu Sjálfstæðisflokksins að síðustu samningunum. Þeir sem voru æfir vegna framgöngu forsetans í fjölmiðlamálinu fyrir átta árum höfðu gleymt því enda minntist hann aldrei á þá byltingu í kosningabaráttunni.

Athyglisvert er að menn leita aldrei svara við því hvað hefði gerst ef synjunarvaldinu hefði ekki verið beitt þrívegis í þessum tveimur málum. Hvaða aðrir kostir voru í stöðunni? Þetta þarf að meta til þess að fá rétta mynd. Það er líka nauðsynlegt til þess að málefnaleg umræða geti farið fram um synjunarvaldið, eins og það er nú ákveðið í stjórnarskrá, og aðra kosti í þeim efnum.

Eða upphafning?

Fyrra málið snerist um það hvort sú takmörkun á eignarhaldi fjölmiðla sem þáverandi ríkisstjórn vildi lögleiða samræmdist ákvæðum stjórnarskrárinnar um prentfrelsi og tjáningarfrelsi. Stjórnarskráin mælir svo fyrir að dómstólar skeri úr slíkum ágreiningi og séu vörn borgaranna ef út af er brugðið. Sú skjaldborg er virk og verður ekki bætt með þjóðaratkvæði. Forsetinn kom í veg fyrir að dómstólar gegndu þessu hlutverki.

Þegar forsetinn fékk áskoranir um að synja svonefndum öryrkjalögum hafnaði hann hins vegar þeim óskum með vísan til þess að ágreiningurinn snerist um stjórnarskrána og heyrði því undir dómstóla.

Fyrri synjun forseta á Icesave-lögunum sem ríkisstjórnin stóð ein að leiddi til þess að Bretar og Hollendingar buðust til að semja að nýju með því skilyrði að stjórnarandstaðan ætti þar aðild að. Synjunin þvingaði því sannarlega fram nýja samningsstöðu sem ekki hefði fengist ella.

Ríkisstjórnin og Sjálfstæðisflokkurinn stóðu sameiginlega að síðustu Icesave-lögunum á Alþingi. Það mál snerist um að festa viðunandi lausn í samningi eða láta óvissuna standa þar til EFTA-dómstóllinn skæri úr. Forsetinn setti traust sitt á alþjóðlegan dómstól. Þjóðin var sammála því. Vogun vinnur og vogun tapar. Hvort það reynist betri lausn kemur ekki í ljós fyrr en dómur fellur.

Af þessu má ráða að einungis fyrri synjunin á Icesave-lögunum bætti stöðu borgaranna með ótvíræðum hætti. Í hinum tveimur tilvikunum er ekki með rökum unnt að halda því fram.

Á fjölmiðlalögin reyndi aldrei fyrir Hæstarétti því Alþingi beygði sig fyrir forsetanum og felldi lögin úr gildi. Hvorug þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave leiddi hins vegar til málaloka. Fullkomin óvissa ríkir enn um lyktir þess máls. Tal forsetans um synjunarvaldið er því nær persónulegri upphafningu en lýðræðisbyltingu.

Forsætisráðherra á leik

Þegar forsetinn hæðist að Alþingi vegna ótrúverðugleika gleymir hann því að öll stjórnarfrumvörp eru lögð fram í hans nafni, líka þau sem hann synjar. Í stjórnskipulegum skilningi er forsetinn og ríkisstjórnin eitt og sama fyrirbærið.

Hugmyndir forsetans virðast hins vegar byggja á því að kljúfa framkvæmdavaldið í tvennt, forseta og ríkisstjórn, þegar það hentar honum. Það væri stjórnskipulegur óskapnaður sem á ekkert skylt við valdajafnvægi löggjafarvalds og framkvæmdavalds sem víða þekkist. Ríkisstjórnin hefur brugðist í að beita þeim valdheimildum sem hún hefur til að halda forsetanum í skefjum þótt stjórnarskrárreglurnar þurfi líka að bæta.

Það er heldur öfugsnúið þegar forsetinn skammar forsætisráðherra eigin ríkisstjórnar fyrir að halda illa á endurskoðun stjórnarskrárinnar. En veruleikinn er þó sá að þar hefur forsetinn lög að mæla.

Forsætisráðherrann gerði best í því að taka forsetann á orðinu og bjóða stjórnarandstöðunni upp á viðræður um breytingar í áföngum sem líklegt er að ná megi samstöðu um. Byrja mætti á forsetanum, auðlindunum og aðild að fjölþjóðasamtökum sem deila fullveldisrétti á ákveðnum sviðum. Forsetinn er í valdatafli og forsætisráðherrann á leik. Svo er líka hægt að sitja við sinn keip.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×