Fastir pennar

Kosningar án málefna

Þorsteinn Pálsson skrifar
Mörgum finnst málefnabaráttan í forsetakosningunum heldur rýr í roðinu. Það leiðir af stjórnarskránni. Forsetanum eru einfaldlega ekki ætluð þau völd að kosningarnar geti snúist um málefni.

Frambjóðendur reyna hvað þeir geta að telja þjóðinni trú um að forsetinn hafi meira að segja en raunin er. Þeir ganga þó misjafnlega langt í því. Forsetinn trúir sjálfur að hann sé afar valdamikill og því ráði vera hans í embætti mestu um gæfu þjóðarinnar.

Hitt er annað að forsetinn getur án beinna valda haft áhrif, bæði góð og slæm. Kristján Eldjárn og Vigdís Finnbogadóttir höfðu bæði bætandi áhrif á andrúmsloftið í samfélaginu. Fæst bendir til að við fáum aftur þannig þjóðhöfðingja. Og vel má vera að sá kostur sé einfaldlega úr sögunni.

Frambjóðendur virðast hafa ólík sjónarmið um það hvort forsetinn eigi að reka sjálfstæða utanríkisstefnu. Hann er að sjálfsögðu algjörlega frjáls að því. En það er ríkisstjórnin á hverjum tíma sem ræður stefnu Íslands.

Þegar núverandi forseti hefur farið gegn ríkisstjórninni í erlendum fjölmiðlum hefur það ekki haft nein áhrif á ríkisstjórnir annarra landa. Þær vita að hann talar fyrir sjálfan sig en ekki Ísland þegar svo stendur á. Það hefur hins vegar haft talsverð áhrif hér heima því að margir trúa því sem forsetinn trúir sjálfur að einhverju máli skipti þegar hann talar gegn ríkisstjórn landsins í útlöndum. Hér hjálpar honum eins og sakir standa almenn andúð á ríkisstjórninni. Hún virðist ráða nokkru um afstöðu margra kjósenda.

Vald án ábyrgðar

Fjölmiðlar hafa reynt að fá forsetaframbjóðendurna til að búa til reglu um það hvenær rétt sé að beita synjunarvaldinu. Það er samkvæmisleikur. Veruleikinn er sá að forsetinn getur ekki búið til neina reglu um það efni. Þetta er hreint geðþóttavald. Úr því verður aðeins bætt með breytingu á stjórnarskránni.

Eldri fræðimenn voru á einu máli um að synjunarvaldinu fylgdi ábyrgð. Þeir töldu að forseti sem beitti því yrði að víkja stæði þjóðin með ríkisstjórninni í þjóðaratkvæðagreiðslu. Að sama skapi ætti ríkisstjórnin að öðru jöfnu að fara frá ef þjóðin fylgdi forsetanum.

Í fyrsta skipti sem forsetinn beitti ákvæðinu gafst þáverandi ríkisstjórn upp fyrir honum og felldi lögin sjálf úr gildi. Í tíð núverandi stjórnar hefur þjóðin tvívegis farið gegn henni og staðið með forsetanum. Ríkisstjórnin taldi að það ætti ekki að hafa pólitískar afleiðingar þótt þjóðin hafnaði málstað hennar.

Ástæðan fyrir því er sú nýja túlkun forsetans að þessu valdi fylgi ekki ábyrgð. Forsetinn er vitaskuld frjálsari að því að beita ákvæðinu ef það hefur engar afleiðingar fyrir hann sjálfan. Forystumenn allra stjórnmálaflokka hafa fundið út að ábyrgðarleysishugmynd forsetans leysir þá líka frá afleiðingum þess að tapa þjóðaratkvæði.

Í reynd er það miklu fremur upplausn þessarar ábyrgðarreglu sem valdið hefur stjórnskipulegri lausung en synjunarvaldið sjálft. Athyglisvert er að enginn frambjóðendanna hefur gefið fyrirheit um að berja í þann brest sem hlotist hefur af því að horfið var frá þeirri grundvallarhugsun að þessu valdi fylgdi ábyrgð. Að þessu leyti virðist litlu skipta hver verður kosinn. Þessi spurning veit þó að siðferðilegri undirstöðu einu beinu valdheimildar forsetans.

Koma að tómum kofanum

Menn hafa deilt um hvort viðeigandi sé að forseti segi fyrirfram hvort hann áformar að synja lögum staðfestingar. Forsetinn hóf kosningabaráttuna með yfirlýsingu um að sjávarútvegsfrumvörpin væru vel til þess fallin að fara í þjóðaratkvæði. Ýmsum þótti það ekki góð latína.

Á hinn bóginn má halda því fram að ærlegra sé að Alþingi fái að vita um afstöðu forsetans áður en það hefur umræðu um einstök mál. Það gæti hugsanlega leitt til meiri sátta ef meirihlutinn er ekki öruggur um að hafa stuðning þjóðarinnar. Líka er hugsanlegt að áform forseta um synjun ráðist þá fremur af áliti hans sjálfs á efni laganna en mati á skoðanakönnunum.

Mótframbjóðendur forsetans hafa hneykslast á þessu og hann hefur dregið í land. Álitaefni er hvort hann hefði átt að gera það. Í allri lausunginni þarf ekki að vera verra að þetta álit liggi fyrir. Breyti Alþingi frumvörpum getur afstaða forsetans eðlilega breyst. Annað hefði þá ekki gerst en að hann hefði haft jákvæð áhrif á löggjafarstarfið.

Þessi spurning endurspeglar hins vegar veikleika stjórnarskrárinnar. Gagnlegt hefði verið að heyra skoðun frambjóðendanna á því hvernig færa mætti stjórnarskrárákvæðin um forsetann að nýjum tíma og kröfum. En þar koma kjósendur að tómum kofanum hjá öllum frambjóðendum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×