Lífið

Tökur hefjast við Mývatn í haust

Kit Harington við tökur á Game of Thrones 2 í fyrra. Tökur á þriðju þáttaröðinni hefjast hér á landi í haust. 
fréttablaðið/vilhelm
Kit Harington við tökur á Game of Thrones 2 í fyrra. Tökur á þriðju þáttaröðinni hefjast hér á landi í haust. fréttablaðið/vilhelm fréttablaðið/vilhelm
„Það er nokkurn veginn búið að ákveða að þau komi í haust aftur,“ segir Snorri Þórisson hjá framleiðslufyrirtækinu Pegasus.

Þriðja þáttaröð af miðaldafantasíunni Game of Thrones verður að hluta til tekin upp hér á landi. Aðilar frá bandarísku sjónvarpsþáttunum komu hingað fyrripartinn í maí og skoðuðu tökustaði í samvinnu við Pegasus. Þeim leist vel á Norðurland og þá sérstaklega Mývatnssvæðið. „Þetta verður einhvers staðar þar en það er ekki búið að negla það alveg niður. Það eru margir staðir sem koma til greina. Menn þekkja Suðurlandið og það getur vel verið að það verði eitthvað þar líka. En það eru ekki endilega jöklar sem þeir vilja mynda núna,“ segir Snorri.

Hann er sammála því að þetta séu fín tíðindi fyrir Pegasus og íslenskan kvikmyndaiðnað enda unnu á þriðja hundrað manns við síðustu þáttaröð, þar á meðal fjöldi Íslendinga. Hún var að hluta til tekin upp við rætur Vatnajökuls síðasta haust. Talið er að kostnaðurinn við framleiðsluna hér landi hafi numið rúmlega 200 milljónum íslenskra króna.

Rúmlega tíu milljónir hafa samanlagt fylgst með hverjum þætti af Game of Thrones hjá bandarísku sjónvarpsstöðinni HBO. Þáttaröðin er þar með orðin sú þriðja vinsælasta í sögu stöðvarinnar. -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×