Lífið

Fyrstir með Game of Thrones

Kit Harington fer með hlutverk í Game of Thrones sem voru að hluta til teknir upp á Íslandi.
Kit Harington fer með hlutverk í Game of Thrones sem voru að hluta til teknir upp á Íslandi. fréttablaðið/vilhelm
Sjónvarpsþættirnir Game of Thrones verða Evrópufrumsýndir á Stöð 2 þann 2. apríl. Fyrsti þátturinn verður því sýndur á sjónvarpsstöðinni innan við sólarhring eftir frumsýninguna á HBO í Bandaríkjunum.

Fyrsta þáttaröð Game of Thrones sló í gegn er hún var sýnd í fyrra og bíða því margir fullir eftirvæntingar eftir framhaldi þáttanna. Nýja þáttaröðin var að hluta til tekin upp hér á landi síðasta haust og flutti Fréttablaðið meðal annars fréttir af því. Að sögn Pálma Guðmundssonar, framkvæmdastjóra dagskrársviðs 365, þykir fréttanæmt að sjónvarpsstöð á Íslandi skuli slá öðrum evrópskum sjónvarpsstöðvum við í þessum málum, en í fyrra var það sjónvarpsstöðin SKY sem hlaut frumsýningarréttinn. Þáttaröðin verður ekki sýnd í flestum Evrópulöndum fyrr en í maí.

„Við óskuðum eftir því við HBO að fá að sýna fyrsta þáttinn sólarhring á eftir frumsýningunni í Bandaríkjunum og fengum það. Það kann að vera að Íslandstengingin hafi liðkað aðeins til fyrir okkur,“ segir Pálmi sem fékk góðu fregnirnar á fimmtudaginn. Einhverjar tilfæringar verða gerðar á dagskrá Stöðvar 2 í kjölfarið svo hægt verði að hefja sýningar á Game of Thrones svo snemma.

Pálmi kveðst afar ánægður með fréttirnar enda sé þáttaröðin mjög vinsæl og á sér marga aðdáendur hér á landi.

„Ég er sjálfur mikill aðdáandi þáttanna og er mjög spenntur fyrir næstu seríu. Það kitlar auðvitað líka að fá að sjá Ísland á sjónvarpsskjánum.“

Game of Thrones verða á dagskrá á mánudagskvöldum klukkan 21. -sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×