Sport

Inga Elín bætti met Hrafnhildar | Metin féllu í Ásvallalaug

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Inga Elín Cryer
Inga Elín Cryer Mynd/ÍA
Inga Elín Cryer, sundkona af Akranesi, setti Íslandsmet í 400 metra fjórsundi á lokadegi Íslandsmeistaramótsins í sundi í 25 metra laug í Ásvallalaug í dag. Inga Elín kom í mark á tímanum 4:47.21 mínútur og bætti met Hrafnhildar Lúthersdóttur úr SH árið 2010 um 37/100 úr sekúndu.

Karla- og kvennaboðssveitir SH settu ný Íslandsmet í 4x50 metra skriðsundi. Karlasveitin kom í mark á tímanum 1:33,63 mínútur en gamla metið, 1:33,69 mínútur, var í eigu sveitar SH frá árinu 2009. Orri Freyr Guðmundsson, Kolbeinn Hrafnkelsson, Predrag Milos og Aron Örn Stefánsson skipuðu sveit SH.

Kvennasveitin kom í mark á tímanum 1:45.32 mínútur og bætti met Ægis, 1:46.11 mínútur, frá 2009. Karen Sif Vilhjálmsdóttir, Ingibjörg Kristín Jónsdóttir, Snjólaug Tinna Hansdóttir og Bára Kristín Björgvinsdóttir skipuðu sveit SH. Sama sveit setti Íslandsmet í 4x100 metra fjórsundi í gær á tímanum 4:19,86 mínútur.

Karlaboðsundssveit SH í 4x100 metra skriðsundi karla setti Íslandsmet í gær. Hún kom í mark á tímanum 3:25,63 mínútur en sveitina skipuðu Orri Freyr Guðmundsson, Árni Guðnason, Kolbeinn Hrafnkelsson og Aron Örn Stefánsson.

Fjölmörg piltna- og stúlknamet féllu um helgina en nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Sundsambands Íslands, sjá hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×