Sport

Ólympíugull og heimsmet hjá Jóni Margeiri

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jón Margeir Sverrisson úr Fjölni/Ösp vann í dag til gullverðlauna í 200 metra skriðsundi í flokki S14 á Ólympíumóti fatlaðra í London.

Jón Margeir kom í mark á nýju heimsmeti og Ólympíumeti, 1:59,62 mínútum, og var 17/100 úr sekúndu á undan Ástralanum Daniel Fox sem varð annar. Cho Wonsang frá Suður-Kóreu varð þriðji á 1:59.93 mínútum.

Um er að ræða fyrstu verðlaun Íslendinga á Ólympíumóti fatlaðra frá því í Aþenu árið 2004. Frábær árangur hjá þessum nítján ára afreksmanni sem náði forystunni þegar sundið var um það bil hálfnað og lét hana aldrei af hendi.

Jón Margeir setti Íslandsmet og reyndar einnig Ólympíumet í undanúrslitunum í morgun þegar hann kom í mark á tímanum 2:00,32 mínútur. Ólympíumetið lifði reyndar aðeins í stutta stund því Daniel Fox bætti það skömmu síðar. Jón Margeir náði því heldur betur á nýjan leik í úrslitasundinu og setti um leið heimsmet.

Gríðarleg spenna ríkti fyrir úrslitasundið. Aðeins 36/100 skildu að Daniel Fox sem var með besta tímann og Kóreumanninn Wonsang Cho sem átti þann þriðja besta. Auk þeirra voru tveir Bretar meðal þeirra átta sem syntu og því mikil stemmning í stúkunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×