Sport

Murray hafði betur í rokinu og komst í úrslit

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Andy Murray tryggði sér sæti í úrslitum Opna bandaríska meistarmótsins í tennis með því að vinna Tomas Berdych í undanúrslitum í dag.

Það er hvasst í New York í dag en vegna þessa þurfti að fresta úrslitaleiknum í einliðaleik kvenna til morguns. Óvíst er hvort að úrslitaleikurinn í karlaflokki fari fram á morgun eða á mánudag.

Berdych hafði slegið Roger Federer, efsta mann heimslistans, úr leik í fjórðungsúrslitum en Ólympíumeistarinn Murray reyndist sterkari í dag.

Tékkinn Berdych byrjaði reyndar betur og vann fyrsta settið, 7-5. Murray kom mjög sterkur til baka og vann næstu tvö sett afar örugglega, 6-2 og 6-1. Berdych barðist svo fram til síðasta blóðdropa og fékk tækifæri til að vinna fjórða settið eftir að hafa komist yfir í upphækkuninni.

En Murray er með stáltaugar og fagnaði loks sigri. Hann mætir annað hvort Novak Djokovic eða David Ferrer í úrslitunum en þeirra viðureign hefst innan stundar. Hún verður í beinni útsendingu á Eurosport.

Murray hefur einu sinni áður komist í úrslit Opna bandaríska en hann hefur þó aldrei unnið eitt af fjórum stórmótunum. Hann komst nálægt því á Wimbledon-mótinu í sumar en tapaði þá fyrir Federer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×