Fastir pennar

Eistnaflug og aðdráttaraflið

Magnús Halldórsson skrifar
Hér sjást Morðingjarnir Haukur (vinstra megin) og Atli (hægra megin) með félaga mínum Alla "Jesú" í bolasölunni í Egilsbúð. Þar var iðulega mikið líf, og margt um manninn.Mynd/MH
Ég fór ásamt fimm félögum á þungarokkshátíðina Eistnaflug á Neskaupstað um liðna helgi. Það var stórkostleg skemmtun. Við leigðum okkur gistingu á hlöðulofti á Skorrastað, fjórum kílómetrum fyrir utan bæinn, sem breytt hefur verið í skínandi aðstöðu fyrir ferðamenn. Uppábúin rúm, og allt til alls, en í boði eru hestaferðir fyrir ferðamenn sem ábúendur á Skorrastað sjá um. Við fórum reyndar ekki í hestaferðir, heldur héldum okkur við þungarokkið, ásamt því að reyna að veiða fisk í Norðfjarðará.

Eistnaflug er stórkostleg hátíð, sem skartaði mestu af því besta í íslenskri tónlist að mínu mati. Nokkrir tónleikar á hátíðinni voru meðal bestu tónleika sem ég hef séð hér á landi. Tónleikar Skálmaldar, Sólstafa, Morðingjana, Vintage Caravan og I Adapt fannst mér bestir, en sitt sýnist hverjum vitaskuld. Strigaskór nr. 42 voru líka magnaðir, ekki síst fyrir þá sem enn líta á Blót, frá árinu 1994, sem bestu íslensku plötuna fyrr og síðar (ég hitti í það minnsta tvo toppmenn sem fullyrtu þetta um þá plötu), og þá rifjaði Botnleðja skemmtilega upp unglingsárin með slögurum sínum, frammi fyrir magnaðri stemmningu, þó ég hafi reyndar misst af nokkrum lögum hjá bandinu.

Aðdráttaraflið

Þegar heim er komið af hátíð eins og Eistnaflugi velti ég vöngum yfir því hvað það er sem fær fólk til þess að ferðast, innanlands sem utan. Það er hvert aðdráttaraflið sé, drifkrafturinn að baki ferðalaginu. Í tilviki Eistnaflugsins er það þungarokk, hvorki meira né minna, en í tilviki flestra erlendra ferðamanna sem hingað koma er það einstök náttúrufegurð. Heldur fátæklegar rannsóknir liggja fyrir um aðdráttarafl í ferðaþjónustu hér á landi. Þær hafa þó verið að aukast nokkuð og er tölfræðifróðleikur sem Ferðamálastofa tók saman í apríl á þessu ári til marks um það.

MMR framkvæmdi könnun fyrir Ferðamálastofu hjá erlendum ferðamönnum í gegnum netfangalista úr Leifstöð og frá Seyðisfirði. Úrtakið var 4.545 er ferðamenn, og var svarhlutfallið í könnuninni 51 prósent. Í könnuninni voru ferðamenn spurðir að því hvað það væri sem hefði dregið þá hingað til lands. Tæplega 62 prósent nefndu íslenska náttúru sem helsta aðdráttaraflið, 36 prósent nefndu meðmæli frá vinum og ættingjum, tæplega 15 prósent nefndu tilboð á netinu, tæplega 12 prósent fyrri heimsókn, 9,4 prósent blaðagrein sem skrifuð var um ágæti Íslands, og ríflega átta prósent bókmenntir og sögu Íslands. Þá kom einnig fram í könnuninni að tveir af hverjum þremur erlendum ferðamönnum skipulögðu ferð sína hingað með meira en fjögurra mánaða fyrirvara og 34 prósent með minna fjögurra mánaða fyrirvara. Meðalaldur þeirra sem tók könnunina var 39,6 ár. Það sem kom mér einna mest á óvart þegar ég skoðaði þessar upplýsingar var hversu hátt hlutfall erlendra ferðamanna ferðaðist hingað algjörlega á eigin vegum, en ekki í gegnum skipulagða pakkaferð ferðaskrifstofa. Tæplega 80 prósent erlendra ferðamanna koma hingað á eigin vegum en afgangurinn í gegnum skipulagðar ferðir.

Fjöldinn er ekki allt

Á síðasta ári komu hingað 565 þúsund erlendir ferðamenn, og hafa þeir aldrei verið fleiri. Til samanburðar má nefna að á árinu 2000 komu hingað 300 þúsund ferðamenn. Stefnan er sett á að fjölga þeim í eina milljón á næstu fimm árum, en miðað við sama tíma í fyrra hefur fjölgunin það sem af er ári numið um 17 prósentum. Því munu koma hingað nokkuð yfir 600 þúsund ferðamenn á þessu ári ef fram heldur sem horfir.

En þegar kemur að ferðaþjónustunni er þetta ekki spurning um magn heldur gæði. Þannig getur einn vel stæður ferðamaður skilið meira eftir sig en 100 aðrir, ef hann er ánægður með þá þjónustu sem er í boði. Í fyrrnefndri könnun MMR kom í ljós að 46,8 prósent þeirra erlendu ferðamanna sem svöruðu voru með háar tekjur, 39,3 prósent með tekjur í meðallagi og 13,9 prósent með lágar tekjur. Hugsanlega mætti frekar einbeita sér að því að stækka hlutfall þeirra ferðamanna sem eru tilbúnir að kaupa meiri þjónustu hér, frekar en að einblína á fjölgunina.

Ferðaþjónustan skapar fjölmörg störf hér, en innan geirans voru 8.500 störf árið 2009, samkvæmt úttekt Ferðamálastofu, eða sem nam um 5,2 prósentum af heildarstarfafjölda það árið. Síðan þá hefur ferðaþjónustan eflst nokkuð. Þannig jukust heildarútgjöld ferðamanna í fjölbreytilega þjónustu milli áranna 2010 og 2011 um 13 prósent og námu um 133 milljörðum í fyrra. Það munar um það fyrir þjóðarbúið.

Þrykkt í minni

Annars er ferðamennskan um margt óútreiknanleg og oft erfitt að sjá fyrir hvað það er sem er efst í huga ferðamanna þegar þeir fara af landi brott. Þetta þekkja líklega allir af ferðalögum, hvort sem það er hér á landi eða í útlöndum. Ferðin á Eistnaflug er ágætt dæmi um það, en þar stendur helst upp úr hvað öll umgjörðin á hátíðinni var vinaleg, tónleikaskipulag gott, heimafólkið alltaf tilbúið að skutla á Skorrastað, með bros á vör, og vesen almennt margfalt minna en á öllum útihátíðum sem ég hef farið á hér á landi.

Síðan eru líka nokkur augnablik sem verða líklega þrykkt í minni manns til æviloka, líkt og erlendir ferðamenn þekkja vel þegar þeir koma í Mývatnssveit í blankalogni eða sjá önnur náttúruundur Íslands birtast.

Á Eistnaflugi voru mörg slík augnablik sem verða mér ógleymanleg. Kannski er helst að nefna þegar I Adapt tók Territory með Sepultura óaðfinnanlega, frammi fyrir stórkostlegri stemmningu, eða þegar Böbbi, söngvari Skálmaldar, öskraði til Eistnaflugs í Upprisu. Það var rosalegt.






×