Sport

Karlovic krefst afsökunar frá mótshöldurum á Wimbledon

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Karlovic í leiknum gegn Murray.
Karlovic í leiknum gegn Murray. Nordicphotos/Getty
Ivo Karlovic, sem féll úr leik í 3. umferð Wimbledon-mótsins í tennis gegn Skotanum Andy Murray, krefst þess að fá afsökunarbeiðni frá mótshöldurum.

Alls voru dæmdar ellefu „fótvillur" á Karlovic í leiknum sem Króatinn var mjög ósáttur við og gagnrýndi línudómara sem hann sagði hliðholla Murray.

„Fótvilla" (foot fault) kallast það þegar leikmaður stígur á endalínuna í þann mund sem hann gefur upp. Í því tilfelli telst uppgjöfin ólögleg. Afar fátítt er að dæmt er á fótvillur og hvað þá ellefu sinnum í einum leik.

Karlovic var aftur á ferðinni í gær í tvíliðaleik karla með félaga sínum Frank Moser. Þrátt fyrir sigur nýtti Karlovic tækifærið og ræddi um leikinn gegn Murray.

„Ég horfði á upptökur frá leiknum í gærkvöldi (í fyrrakvöld) og það skrítna er að aðeins einu sinni var uppgjöf mín endursýnd og í því tilfelli var ekki um fótvillu að ræða," sagði Karlovic sem reiknar með að leggja inn formlega kvörtun vegna atviksins.

„Ég reikna með því. Ef það er hægt að skoða þetta og í ljós kemur að ég braut ekki af mér fer ég fram á opinbera afsökun frá mótshöldurum því ég tel að leikurinn hefði átt að fara í fimm sett," sagði Karlovic sem tapaði í fjögurra setta leik.

Athygli vakti að engin fótvilla var dæmd á Karlovic í tvíliðaleiknum í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×