Sport

Djokovic stóðst áhlaup Tsonga og komst í undanúrslit

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Novak Djokovic tryggði sér í dag sæti í undanúrslitum Opna franska meistaramótsins í tennis eftir sigur á Frakkanum Jo-Wilfried Tsonga í fimm setta leik í París.

Það var fátt sem leit út fyrir að heimamaðurinn ætti nokkuð í efsta mann heimslistans í fyrsta settinu. Því lauk 6-1 fyrir Serbann og útlitið gott hjá honum. Þá kviknaði hins vegar á Tsonga.

Frakkinn vann næstu tvö sett 7-5 og 7-5 og þurfti því sigur í einu setti til viðbótar til að slá út besta tennisspilara heims fyrir framan landa sína. Það tókst honum hins vegar ekki.

Litlu munaði þó í æsispennadi fjórða setti. Tsonga fékk tvö tækifæri til þess að tryggja sér sigur en Djokovic stóð pressuna og vann í oddasetti 7-6 (8-6). Í fimmta settinu var svo allur vindur úr Frakkanum og Djokovic vann settið 6-1.

Leikur kappanna stóð yfir í fjórar klukkustundir og níu mínútur og var mikil skemmtun. Áhugasömum er bent á að mótið er í beinni útsendingu á Eurosport.

Djokovic mætir Svisslendingnum Roger Federer í undanúrslitum. Federer lagði Argentínumanninn Juan Martín del Potro í mögnuðum leik. Del Potro vann fyrstu tvö settin 6-3 og 7-6 (7-4) en þá vaknaði Federer til lífsins.

Hann var hreinlega óstöðvandi í þremur síðustu settunum sem hann vann 6-2, 6-0 og 6-3.

Á morgun mætast Andy Murray frá Skotlandi og David Ferrer frá Spáni annars vegar og Spánverjarnir Rafael Nadal og Nicolas Almagro hins vegar í síðari viðureignunum í átta manna úrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×