Sport

Sharapova getur komist í fámennan hóp í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Maria Sharapova.
Maria Sharapova. Mynd/AP
Rússneska tenniskonan Maria Sharapova á möguleika að komast í í fámennan hóp vinni hún opna franska mótið í kvöld. Með sigri hefur henni tekist að vinna öll fjögur risamótin og það hefur aðeins níu öðrum tenniskonum tekist í sögunni.

Sharapova mætir Sara Errani frá Ítalíu í úrslitaleiknum en Sharapova hefur þegar tryggt sér efsta sætið á heimslistanum og verður þar í fyrsta sinn frá 2008. Sharapova er sigurstranglegri en Errani hefur spilað vel á leirvöllunum á þessu ári.

Sharapova, sem er 25 ára gömul, vann Wimbledon-mótið 17 ára og var ennfremur búin að vinna opna bandaríska og opna ástralska mótið áður en hún var tvítug. Það hefur ekki gengið eins vel síðustu árin en hún komst í úrslit Wimbledon-mótsins í fyrra.

„Þetta verður sérstakt. Þetta er ný staða fyrir mig en jafnframt það sem mig hefur dreymt um lengi," sagði Maria Sharapova aðspurð um möguleikann á því að klára risamóta-fernuna.

Þessar hafa unnið öll fjögur risamótin:

Maureen Connolly Brinker (Bandaríkin)

Doris Hart (Bandaríkin)

Shirley Fry Irvin (Bandaríkin)

Margaret Court (Ástralía)

Billie Jean King (Bandaríkin)

Chris Evert (Bandaríkin)

Martina Navratilova (Tékkóslóvakía/Bandaríkin)

Steffi Graf (Þýskaland)

Serena Williams (Bandaríkin)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×