Sport

Maria Sharapova vann úrslitaleikinn létt - risamótafernan í húsi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Maria Sharapova fagnar sigrinum í dag.
Maria Sharapova fagnar sigrinum í dag. Mynd/AP
Rússneska tenniskonan Maria Sharapova tryggði sér sigur á opna franska meistaramótinu í tennis með því að vinna öruggan sigur á Sara Errani frá Ítalíu í tveimur hrinum í úrslitaleiknum, 6-3 og 6-2. Það tók Sharapovu aðeins 89 mínútur að tryggja sér sigur í úrslitaleiknum.

Maria Sharapova varð þar með aðeins tíunda konan í sögunni til þess að vinna öll fjögur risamótin. Þetta var fyrsti sigur hennar á risamóti síðan að hún meiddist á öxl árið 2009 en Sharapova hafði tapað tveimur úrslitaleikjum á risamótum á síðustu ellefu mánuðum.

Sharapova bættist nú í hóp með kunnum tenniskonum eins og Steffi Graf, Martina Navratilova, Chris Evert, Billie Jean King, Margaret Court og Serena Williams sem hafa líka allar unnið öll fjögur risamótin.

Sigrar Mariu Sharapovu á risamótum:

2004 - Wimbledon-mótið

2006 - Opna bandaríska mótið

2008 - Opna ástralska mótið

2012 - Opna franska mótið




Fleiri fréttir

Sjá meira


×