Jólin

Endurspegla samskiptin

Dóra Welding.
Dóra Welding. Mynd/Anton
„Auðvitað er ég rosalegt jólabarn,“ segir Dóra Welding lyfjatæknir.

„Uppáhaldstíminn minn er frá ágúst fram að jólum. Ég þarf helst að vera í fríi í kringum jólin til að skreyta og pakka. En svo vil ég líka taka allt skraut niður á nýársdag. Þá er ég komin með bólur.“

Dóra segist leggja mjög mikið upp úr því að pakkarnir séu sem glæsilegastir og endurspegli persónuleika viðtakandans. „Ég stúdera skraut til að setja á pakkana alveg frá því í september,“ segir hún. „Ef ég sé eitthvað skemmtilegt dót sem gæti passað á pakka kaupi ég það um leið. Auðvitað nýti ég líka ýmislegt sem ég á fyrir, það þarf alls ekki að vera dýrt. Svo getur fólk hengt dótið sem var á pakkanum á jólatréð og hugsað um Dóru þegar það horfir á það.“

Dóra segir miklar pælingar liggja að baki hverjum pakka, skrautið utan á verði að kallast á við gjöfina sem er innan í. „Aðalatriðið er þó að pakkinn endurspegli það samband sem ég á í við viðtakandann. Að það flæði sem er í samskiptunum skili sér í útliti pakkans.“

Dóra segist alltaf hafa verið svona mikið jólabarn og skreytingagleðin sé í genunum. „Þetta er ríkjandi eiginleiki í fjölskyldu minni,“ segir hún. „Ég beinlínis elska allt svona augnakonfekt.“ -fsb



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×