Fastir pennar

Heildarstefnumótun nauðsynleg

Steinunn Stefánsdóttir skrifar
Sífellt fleiri þolendur kynferðisbrota hafa hugrekki til að stíga fram og greina frá þeim brotum sem þeir hafa orðið fyrir. Þetta á ekki síst við fólk sem orðið hefur fyrir brotum innan vébanda skóla, trúfélaga og ýmissa félagasamtaka.

Þessi þróun hefur átt sér stað á löngum tíma en verið eins og snjóbolti þannig að hún fór hægt af stað og varð svo hraðari og hraðari. Þróunin á sér ekki stað vegna þess að kynferðisbrotum fjölgar, enda hafa mörg kynferðisbrot komið fram í dagsljósið sem framin hafa verið fyrir árum og áratugum.

Það er miklu fremur aukin umræða um kynferðisbrot sem hefur leitt til þess að fleiri gera sér grein fyrir því en áður að enginn á að þurfa að þola slík brot og bera þau einn og í hljóði um alla framtíð.

Það er nauðsynlegt að til sé formlegur farvegur þegar slík mál koma upp, ekki síst í ljósi þess að mörg þau brot sem fram koma eru fyrnd samkvæmt lögum eins og þau eru nú.

Í mennta- og menningarmálaráðuneytinu hefur heyrst að áhugi sé á því innan fjölmargra félagasamtaka sem vinna með börnum og unglingum að stofnað verið fagráð um meðferð kynferðisbrotamála innan vébanda slíkra samtaka eða í það minnsta að skýr viðbragðsáætlun verði fyrir hendi sem farið verði eftir þegar kynferðisbrotamál koma upp.

Þegar starfar fagráð vegna meðferðar kynferðisbrota innan trúfélaga þannig að það liggur beint við að farvegur kynferðisbrota sem eiga sér stað í æskulýðsstarfi fái viðlíka farveg. Það sama á við um brot sem framin kunna að verða innan skóla og meðferðarstofnana.

Guðrún Ögmundsdóttir formaður fagráðs innanríkisráðuneytisins um meðferð kynferðisbrota innan trúfélaga segir í frétt hér í blaðinu í dag að brýnt sé að skoða þau lög sem snúa að meðferð kynferðisbrota. Í sama streng tekur Guðrún Jónsdóttir hjá Stígamótum sem einnig ítrekar að heildarstefnumörkun verði að eiga sér stað í málaflokknum.

Guðrún Ögmundsdóttir boðar að áætlað sé að fagráðið efni til samstarfs við önnur ráðuneyti í haust til að skoða meðferð kynferðisbrota innan íþrótta- og æskulýðsfélaga. Hún telur nauðsynlegt að skoða alla lagabálka um fagráð og siðareglur og telur raunar lagabreytinga að vænta strax í haust. Það gengur vonandi eftir.

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir það hugrakka fólk sem stígur fram og greinir frá kynferðisbrotum sem það hefur orðið fyrir innan vébanda stofnana eða félagasamtaka að það geti treyst því að mál þeirra fari í fyrirsegjanlegan og faglegan farveg. Það væri því mikill sómi að því að koma slíku umhverfi á hið fyrsta.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×