Fastir pennar

Já, já; nei, nei

Þorsteinn Pálsson skrifar
En þegar þér talið sé já yðar já og nei sé nei.“ Þetta er nýjasta þýðingin á þekktri setningu úr fjallræðunni sem fyrir einhverjar sakir festist með öfugri merkingu við Framsóknarflokkinn á sinni tíð. Boðskapurinn er að tala skýrt og meina það sem sagt er. Í dag er Íslendingum ætlað að hlýða þessu kalli.



Þjóðin tekur sjálf ákvörðun um Icesave-lögin og situr uppi með hana hver sem hún verður, án þess að geta kallað nokkurn til ábyrgðar eins og gerist þegar Alþingi á síðasta orðið um mál.



Ríkisstjórnin fékk mikinn meirihluta Alþingis til að samþykkja Icesave-lögin með stuðningi Sjálfstæðisflokksins. Segi þjóðin nei ætlar ríkisstjórnin eigi að síður að sitja eins og hún hafi sjálf sagt nei. Segi þjóðin já ætlar forsetinn að sitja eins og hann hafi samþykkt lögin.

Fyrir hvorugum málstaðnum er forysta sem ætlar að bera ábyrgð. Þannig gefur ríkisstjórnin til kynna að sigur andstæðinganna hafi ekki meiri efnahagsáhrif en svo að allt verði með felldu þótt þeir hafi betur. Með nokkrum sanni má segja að markmið þjóðaratkvæðagreiðslunnar sé að gera út um gildi laga en ekki hvort ríkisstjórn eða forseti skuli sitja. En málið er flóknara.



Hvernig eiga kjósendur að vita hvort alvöruþungi býr að baki hjá ríkisstjórninni annars vegar og forsetanum hins vegar? Eina skýra leiðin til þess að kalla það fram er að úrslitin hafi afleiðingar fyrir þá sem tillögurnar gera þannig að já þýði já og nei sé nei. Flóttinn frá ábyrgð skýrir að hluta minnkandi stuðning við lögin í skoðanakönnunum og að margir hyggjast nota tækifærið til að segja ríkisstjórninni til syndanna.

 

Þöggun

Forystumenn SA og ASÍ hafa gert þveröfugt við ríkisstjórnina. Þeir hafa í fullri hreinskilni sagt að fall laganna muni hafa áhrif á tilraun þeirra til að semja til þriggja ára. Þessi ábyrga afstaða fór öfugt í formann Framsóknarflokksins og innanríkisráðherrann. Tvo daga í röð fengu þeir forsíðu Morgunblaðsins til að staðhæfa að í þessari afstöðu fælust hótanir er græfu undan lýðræðinu.



Þetta eru staðhæfingar án röksemda. Á það er að líta að fulltrúar launafólks og atvinnufyrirtækja sitja andspænis hvor öðrum við samningaborðið. Geta þeir hótað hvor öðrum þegar þeir eru sammála? Erfitt er að færa rök fyrir því. Þegar kenningin um hótunina er fallin leiðir af sjálfu sér að engin rök eru lengur fyrir ásökunum um andlýðræðislega hegðun.



Raunveruleikinn er sá að formaður Framsóknarflokksins og innanríkisráðherrann eru að ásaka forystumenn SA og ASÍ fyrir að vera samkvæmir sjálfum sér. Bæði samtökin hafa lýst því að samning til þriggja ára sé ekki unnt að gera nema fjárfestingar aukist í atvinnulífinu.



SA og ASÍ hafa fyrir löngu sagt að höfnun Icesave-laganna dragi úr líkum á að sá hagvöxtur verði sem þeir stefna að til að styrkja fyrirtækin og bæta kjörin. Nú geta menn eðilega haft ólíkar skoðanir á slíku mati. En fram til þessa hefur enginn dregið í efa að þeir hefðu rétt til að byggja á því. Þegar þeir leggja skipum sínum saman er verið að gæta almannahagsmuna.



Forystumenn vinnumarkaðarins verða vitaskuld að rökstyðja sitt mál. Það verða hinir einnig að gera sem andmæla þeirra rökum. En það er ekki gild fullyrðing að röksemdafærsla eins sé andstæð sjálfu lýðræðinu. Þvert á móti er lýðræðinu fyrst hætta búin ef viðurkenna ætti umræðuþöggun af því tagi.

Er hægt að segja nei en fá út já?

Þá spyrja menn: Var ekki óvarlegt að segja þetta? Því má svara með annarri spurningu: Ef báðir aðilar máls eins og hér um ræðir eru sammála um mikilvæga forsendu þess, hví ættu þeir að draga fjöður yfir þá sannfæringu þegar við blasir að þessi forsenda gæti fallið í þjóðaratkvæði?



Hefðu þeir sagt að niðurstaða Icesave-kosninganna hefði engin áhrif á kjarasamningana væru fyrri orð þeirra ómerk. Þeir yrðu eins og ríkisstjórnin. Já þeirra yrði ekki já og nei ekki nei. Málflutningur þeirra yrði ótrúverðugur. Það væru ósannindi ef þeir segðu nú að niðurstaðan í þjóðaratkvæðinu hefði ekki áhrif. Og þögn væri hvít lygi.



Þeir sem ábyrgð bera í samfélaginu, hvort sem er í stjórnmálum eða á vinnumarkaði, verða að segja satt. Efnahagslífið verður ekki talað í gang eins og menn héldu að unnt væri að tala gengi krónunnar upp fyrir hrun hennar. Það getur verið hreystimerki að hafa stór orð um mikilvægi þess að standa í lappirnar og kikna ekki í hnjánum. En hagvöxtur verður aðeins til með ákvörðunum sem byggjast á skynsamlegu hyggjuviti. Formaður Framsóknarflokksins og innanríkisráðherrann hafa ekki lagt mest til af því.



Umræðan um Icesave-lögin hefur verið á þeim nótum að unnt væri að segja nei en fá út já. Verst að lífið hefur aldrei verið svo einfalt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×