Innlent

Yfirheyrslum yfir Bjarka og Guðmundi lauk á áttunda tímanum í kvöld

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari

Yfirheyrslum yfir tveimur fyrrverandi starfsmönnum Kaupþings lauk á áttunda tímanum í kvöld. Þetta segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari en ekki var farið fram á gæsluvarðhald yfir þeim. Yfirheyrslum yfir sjö einstaklingum í London átti að ljúka í kvöld, en Ólafur Þór hafði ekki upplýsingar um hvort þeim væri lokið.

Bjarki Diego, fyrrverandi framkvæmdastjóri útlána Kaupþings og Guðmundur Þór Gunnarsson, sem var viðskiptastjóri á útlánasviði Kaupþings, voru handteknir í morgun og yfirheyrðir í allan dag hjá embætti sérstaks saksóknara. Þá varð gerð húsleit heima hjá þeim.

Efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar (SFO) sagði í morgun að tveir menn hefðu verið handteknir hér á landi og sjö í London. Aðgerðirnar tengjast eingöngu rannsóknum á meintum brotum vegna lánveitinga Kaupþings til Robert Tchenguiz og tengdra aðila en ekki meintum blekkingum eða villandi upplýsingagjöf Kaupþings í Bretlandi eða rannsókn SFO á EDGE-reikningunum, líkt og breskir fjölmiðlar greindu frá í dag.

Meðal þeirra sem handteknir voru í London eru bræðurnir Robert og Vincent Tchenguiz, Ármann Þorvaldsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings Singer & Friedlaner í Lundúnum, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings og Guðni Níels Aðalsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fjárstýringar Kaupþings. Nöfn tveggja annarra sem handteknir voru í Lundúnum eru óþekkt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×