Innlent

Morðrannsókn: Tilviljun að Hannes var einn heima

Breki Logason skrifar

Tilviljun ein virðist hafa ráðið því að yngsta systir Hannesar Þórs Helgasonar sem myrtur var á heimili sínu um síðustu helgi, var ekki á heimilinu umrædda nótt, en hún hefur undanfarið búið hjá bróður sínum. Enginn er nú í haldi lögreglu vegna málsins.

Hannes Þór fannst myrtur á heimili sínu í hádeginu á sunnudag og er morðingjans enn leitað. Á blaðamannafundi sem lögreglan hélt í gær vegna málsins kom fram að enginn ummerki séu um innbrot, en talið er líklegt að morðinginn hafi farið inn um dyr sem allra jafna eru ólæstar.

Á fundinum var lögregla spurð hvort Hannes hefði búið einn í Háaberginu og svaraði Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn því til að kærasta Hannesar hefði búið með honum.Hann var þá spurður hvort fleiri hefðu búið á heimilinu og sagði hann þá:

„Ég get ekki svarað þessu," sagði Friðrik.

Fréttastofu er kunnugt um að yngsta systir Hannesar hefur búið tímabundið á heimili hans ásamt unnusta sínum, en þau seldu nýlega hús sitt og bíða eftir að nýtt húsnæði verði tilbúið.

Umrædda nótt gistu þau hinsvegar á heimili elstu systurinnar sem fór út úr bænum, og gættu barns hennar. Tilviljun ein virðist því hafa ráðið því að þau voru ekki á heimili Hannesar nóttina sem verknaðurinn var framinn.

Lítið er að frétta af rannsókninni og er enginn í haldi lögreglu. Þeir sem einhverjar upplýsingar geta veitt um málið, eru hvattir til þess að hafa samband við lögreglu í síma 444-1104.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×