Lífið

Hverfisbarinn breytist í Bankann

Mikael Nikulásson opnar skemmtistaðinn Bankann, þar sem Hverfisbarinn stóð áður. Fréttablaðið/Anton
Mikael Nikulásson opnar skemmtistaðinn Bankann, þar sem Hverfisbarinn stóð áður. Fréttablaðið/Anton

„Við erum búnir að taka þetta allt í gegn og við ætlum að rífa þennan stað upp og gera hann vinsælan,“ segir Mikael Nikulásson veitingamaður.

Skemmtistaðurinn Bankinn verður opnaður um helgina þar sem Hverfisbarinn stóð áður, á horni Smiðjustígs og Hverfisgötu. Mikael segir að búið sé að taka staðinn í gegn.

„Þetta er allt öðruvísi en fyrir viku, eiginlega bara svart og hvítt.“ Hann segir að markhópurinn hjá Bankanum eigi að vera fólk á aldrinum 20-35 ára, en allir eldri en tvítugir séu að sjálfsögðu velkomnir. „Það verður allavega ekkert yngra lið þarna en tuttugu ára, bara eins og þetta á að vera á skemmtistöðum.“

Mikael segir að vinsældir Hverfisbarsins hafi dalað með árunum. „Það eru bara búnir að vera krakkar þarna undanfarið, því miður. Við ætlum að gera þetta heiðarlega og fá inn fólk sem hefur aldur til að vera inni á skemmtistöðum,“ segir Mikael, en hann vill meina að unga fólkið hafi fælt eldra fólkið frá.

Auk Bankans reka Mikael og félagar Players í Kópavogi. Vertinn lofar rífandi stemningu á nýja staðnum. „Það þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af öðru.“- ka






Fleiri fréttir

Sjá meira


×