Fastir pennar

Misskipting varðar miklu

Þorvaldur Gylfason skrifar
Suður-Kórea og Taíland eru meðal þeirra þrettán landa, þar sem tekjur á mann hafa vaxið um sjö prósent á ári eða meira í aldarfjórðung eða lengur. Kórea, eins og landið er kallað í daglegu tali, hefur náð enn lengra en Taíland. Kaupmáttur þjóðartekna á mann í Kóreu er nú kominn upp fyrir kaupmátt á mann á Íslandi, eða 28.000 dalir í Kóreu á móti 25.000 dölum hér heima samkvæmt upplýsingum Alþjóðabankans fyrir 2008. Bilið breikkar.

Meiri tekjur, minna púl

Tekjur á hverja vinnustund eru eftir sem áður meiri á Íslandi en í Kóreu, því að þar vinna menn mun lengri vinnuviku en hér heima. Í Kóreu vinna menn að jafnaði 2300 stundir á ári á móti 1800 stundum á Íslandi. Vinnuvikan þar austur frá er með öðrum orðum tíu stundum lengri á heildina litið en hér heima. Árið 1950 unnu Íslendingar yfirleitt 2500 stundir á ári. Við höfum tekið út aukna velsæld í meiri tekjum og minni vinnu. Sama á einnig við um Kóreu, þar sem vinnustundum hefur fækkað úr 2700 árið 1980 niður í 2300 nú. Kóreumenn munu trúlega fikra sig áfram næstu ár líkt og við í átt að minni vinnu samfara meiri tekjum.

Í höfuðborginni Seúl búa tíu milljónir manns, fimmtungur allra landsmanna. Höfuðborgin iðar af velsæld og fjöri og hefur á sér fágaðan, glaðlegan og menningarlegan heimsborgarblæ með fimm þúsund ára sögu í farangrinum. Landsbyggðin er hrjúfari. Landið er á stærð við Ísland. Jöfnuður í tekjuskiptingu er svipaður og í Frakklandi og Hollandi og mun jafnari en í Bandaríkjunum.



Granninn í norðri

Vofa ofbeldis af hálfu Norður-Kóreu skyggir á daglegt líf í Suður-Kóreu. Ríkisstjórn Norður-Kóreu hefur með reglulegu millibili myrt suður-kóreska forustumenn og unnið önnur ofbeldisverk. Hún hefur látið grafa nokkur jarðgöng undir landamæri landanna til að undirbúa innrás, en Suður-Kóreumenn fundu göngin og bjóða ferðamönnum að skoða þau sér til skemmtunar. Nú síðast, það var í marz leið, sökk suður-kóreskt herskip í blíðskaparveðri með 46 manna áhöfn. Ríkisstjórn Suður-Kóreu skipaði rannsóknarnefnd með erlendum sérfræðingum til að kanna orsakir grandsins.

Niðurstaða nefndarinnar er ótvíræð: norður-kóresk eldflaug sökkti skipinu. Norður-kóreskt skráningarnúmer fannst á broti í flakinu. Ríkisstjórnin í Norður-Kóreu þrætir, en enginn trúir henni frekar en heiðvirðri sérfræðinganefnd með valinkunna útlendinga innan borðs. Fólkið í Suður-Kóreu virðist taka málinu með jafnaðargeði. Það er ýmsu vant. Eldflaugum Norður-Kóreu er miðað á Seúl, sem liggur aðeins um 40 kílómetra frá landamærunum. Fjögurra kílómetra breitt vopnalaust belti aðskilur löndin, sem bæði hafa mikinn viðbúnað við landamærin.

„Síðasta sundraða landið" kalla Kóreumenn land sitt. Suður-Kóreumönnum hlýtur þó sumum að hrjósa hugur við að þurfa að taka 24 milljónir norður-kóreskra þurfalinga upp á sína arma, verði af sameiningu landanna. Á móti kemur þjóðarstoltið, hugsjónin um alla Kóreu undir einu þaki.

Fólkið fyrir norðan fer alls á mis. Það dregur fram lífið á matarsendingum í tonnatali að utan, einkum frá Kína. Efnahagur landsins er í niðurníðslu. Fólkið býr við nær algera einangrun frá umheiminum og veit því yfirleitt ekki hvernig Suður-Kórea lítur út eða heimurinn. Ríkisstjórnin nærist á ósannindum og ofbeldi. Réttar upplýsingar um lífið annars staðar myndu grafa undan henni líkt og gerðist í Austur-Evrópu. Sameining landanna á heilbrigðum forsendum myndi á endanum færa íbúum Norður-Kóreu svipuð lífskjör og í Suður-Kóreu líkt og gerzt hefur smám saman eftir sameiningu Þýzkalands.



Stirðnað bros

Taíland er önnur saga. Lífskjör fólksins í því löngum brosmilda landi hafa batnað hröðum skrefum, en þó ekki jafnhratt og í Kóreu. Munurinn á tekjum á mann í löndunum tveim var tæplega þrefaldur 1980 og er nú nær fimmfaldur. Fyrir fáeinum vikum logaði Taíland í mannskæðum óeirðum. Átökin hverfast um togstreitu milli fólksins í sveitunum og íbúa höfuðborgarinnar Bangkok. Tekjuskiptingin er mun ójafnari í Taílandi en í Kóreu. Óánægja sveitanna með sinn hlut kraumaði lengi undir yfirborðinu, áður en upp úr sauð. Kórea á ekki við þennan vanda að stríða, þar eð tekjuskiptingin þar veldur engri umtalsverðri úlfúð meðal fólksins eða togstreitu og spillir þá ekki heldur friðnum. Við þetta bætist, að spillingin í Kóreu hefur farið minnkandi og er nú mun minni en í Taílandi samkvæmt Transparency International.

Sem minnir mig á, að Besti flokkurinn lofaði að hafa spillinguna í borgarstjórn Reykjavíkur uppi á borði. Ætli loforðið sé ekki örugglega afturvirkt?





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×