Innlent

Tæplega 80% í Þjóðkirkjunni

Hlutfall landsmanna átján ára og eldri sem eru skráðir í Þjóðkirkjuna hækkar lítillega milli ára samkvæmt samantekt Hagstofu Íslands. Um 78,8 prósent Íslendinga á kosningaaldri voru skráðir í Þjóðkirkjuna 1. janúar síðastliðinn, en hlutfallið var 78,5 prósent í janúar í fyrra.

Hlutfallið hefur verið á hægri niðurleið lengi, en það var ríflega 87 prósent fyrir tíu árum. Líklegt er að tengja megi smávægilega aukningu nú við brottflutning erlendra ríkisborgara undanfarið og fólksfækkun í landinu almennt.

Alls eru 186.697 átján ára og eldri skráðir í Þjóðkirkjuna. Það er fækkun um 646 einstaklinga milli ára, en samt hlutfallsleg aukning vegna fólksfækkunar.

Lítilleg fjölgun hefur orðið hjá öðrum stærri trúfélögum. Ríflega sex þúsund eru í Fríkirkjunni í Reykjavík og 3.600 í Fríkirkjunni í Hafnarfirði. Í Kaþólsku kirkjuna eru skráðir tæplega 6.600. Tæplega 1.300 eru nú skráðir í Ásatrúarfélagið.

Utan trúfélaga eru tæplega 8.500 átján ára og eldri. - bj





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×