Lífið

Ómar Ragnarsson á árshátíð þungarokksins

Andri Freyr og Ómar Ragnarsson ætla að sækja þungarokkshátíðina Eistnaflug um helgina. Þetta er í fyrsta sinn sem þeir fara á hátíðina.
Andri Freyr og Ómar Ragnarsson ætla að sækja þungarokkshátíðina Eistnaflug um helgina. Þetta er í fyrsta sinn sem þeir fara á hátíðina.
Útvarpsmaðurinn Andri Freyr Viðarsson verður viðstaddur þungarokkshátíðina Eistnaflug nú um helgina ásamt starfsfélaga sínum, Ómari Ragnarssyni. Eistnaflug verður haldin hátíðleg í fimmta sinn nú um helgina og á meðal þeirra hljómsveita sem koma fram eru goðsagnirnar í Napalm Death, Sólstafir, Dr. Spock, Mínus og Klink.

Þetta er í fyrsta sinn sem þeir Andri Freyr og Ómar sækja hátíðina, sem margir líta á sem árshátíð þungarokksins, og segjast þeir hlakka mikið til að upplifa rokkið sem þar ríkir. „Þetta er í fyrsta sinn sem ég fer á Eistnaflug, sem er alveg til skammar, enda er ég heimamaður. Þetta er stór stund og ekki skemmir fyrir að við fáum að upplifa hana saman, ég og Ómar,“ segir útvarpsmaðurinn knái. Aðspurður segist Andri Freyr hvað spenntastur fyrir að sjá kempurnar í Napalm Death, Klink, Mínus og Plastic Gods.

Ómar segist einnig spenntur fyrir hátíðinni og er fullviss um að hann eigi eftir að skemmta sér vel. „Ég á eftir að fíla þetta, þetta er power og kraftur. Ég er gamall þungarokkari sjálfur og vildi bara hlusta á Little Richard og Chuck Berry á mínum yngri árum, Elvis var aldrei nógu grófur fyrir mig. Ég er því viss um að ég eigi eftir að falla vel inn í hópinn. Nafnið á hátíðinni sjálfri þykir mér, sjö barna föður, einnig dásamlegt í alla staði,“ segir Ómar og hlær.

Hann segir samstarfið við Andra Frey hafa gengið vonum framar og eru þeir félagar orðnir hinir mestu mátar. „Þetta hefur verið mjög gefandi, ekki síst fyrir mig. Núna er Andri líka á heimavelli og í staðinn fyrir að ég úði út úr mér mismunandi skemmtilegum fróðleik þá getur hann nú tekið gamla manninn og sagt mér frá öllu,“ segir Ómar.

- sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×