Gagnrýni

Hljóðlátt innlegg í baráttuna

Ragna Sigurðardóttir skrifar
Lifi frelsið eftir Rósku.
Lifi frelsið eftir Rósku.

Myndlist/****

Með viljann að vopni - sýning á verkum 27 íslenskra myndlistarkvenna

Listasafn Reykjavíkur, Kjarvalsstaðir

Sýningarstjóri: Hrafnhildur Schram

Listfræðingurinn og sýningarstjórinn Hrafnhildur Schram hefur verið umsvifamikil á sýningarstjórasviðinu undanfarin ár. Sýning hennar Huldukonur í Þjóðminjasafninu árið 2005 og samnefnd bók vöktu verðskuldaða athygli. Þar dró Hrafnhildur upp mynd af upphafi íslenskra kvenna í myndlist, af menntun þeirra, aðstæðum og auðvitað list þeirra.

Nú er það áratugurinn 1970-80 sem er viðfangsefnið, áratugur sem markar annað upphaf kvenna í íslenskri myndlist.

Á þessum tíma náði áratuga gömul kvennabarátta nýjum hæðum. Mikil vitundarvakning átti sér stað og konur einhentu sér í að endurskilgreina heiminn út frá eigin sjónarhóli. Viðfangsefni eins og líkaminn, heimilið, náttúran og samfélagið voru áleitin og það var brýnt að koma kvenlegum sjónarmiðum á framfæri. Þetta endurspeglast á sýningunni í fjölda mynda af konum og daglegu umhverfi þeirra, heimilinu, baráttunni, bæði stétta- og kvennabaráttu og viðhorfi til náttúrunnar.

Sýningin er lágstemmd fyrir augað, sjónrænir miðlar hafa tekið miklum stakkaskiptum síðan þetta var. Hér eru allmörg veggteppi, grafík, málverk, örfáar ljósmyndir og plaköt. Engar kvikmyndir, eru kannski ekki til? Skúlptúrinn er ekki með sem vekur upp spurningar. Hrafnhildur segir í viðtali að höggmyndir ættu skilið sérsýningu, sem er án efa rétt.

Sýningin verður þó dálítið flatari fyrir vikið. Rúrí stendur upp úr hvað þetta varðar, tillaga hennar að nýjum þjóðbúningi er klassík að ég tali nú ekki um eyðileggingu gyllta Bensins með öxi. Ljósmyndir af Bens-gjörningnum eru eina verkið sem er utan við salinn og það er miður því það hefði hleypt meira fútti í stemninguna inni í salnum að hafa það inni. Endurgerð á þessum gjörningi er við hæfi á minnst þriggja ára fresti í íslensku samfélagi.

Talandi um fútt þá bjóst ég við meiru af slíku en það var kannski bara ekki til staðar. Íslenskar listakonur frömdu ekki gjörninga á borð við verk t.d. Marinu Abramovich sem sat nakin í listasal á Ítalíu árið 1974 með 72 hluti í kringum sig þar á meðal hnífa og byssu og bauð áhorfendum að gera það við líkama hennar sem þeir vildu.

Hér er nálgunin af allt öðrum toga. Það sem situr í manni eftir að skoða er staða listarinnar í samfélaginu á þessum tíma. Það var sjálfsagt að vefa skoðun sína í veggteppi og líta á það sem öflugt innlegg í baráttuna. En í dag? Já það er einmitt sú spurning sem vaknar. Um leið og sýningin birtir mikilvægi þess að skoða listasöguna okkar sem fæstir þekkja, vekur hún ekki síst spurningar um stöðu kvenna og listakvenna í samtímanum.

Niðurstaða: Sýning sem kveikir margar tímabærar spurningar um stöðu kvenna, kjörinn vettvangur til umræðu. Trú listakvennanna á kraft listarinnar sem öflugt tæki í samfélagsbaráttunni stendur upp úr.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×