Viðskipti innlent

Milljónasamningur í höfn

Þórarinn Stefánsson
Þórarinn Stefánsson

Bandaríska fyrirtækið Ticketmaster hefur tekið í notkun farsímaviðmót frá íslenska sprotafyrirtækinu Mobilitusi. Viðmótið var tekið í notkun í Bandaríkjunum í gær, en síðan verður bætt við nýju landi hálfsmánaðarlega fram á haust.

„Þeir ætla að stórauka umferð inn á farsímavefinn,“ segir Þórarinn Stefánsson, annar stofnenda Mobilitus, en Ticketmaster skiptir út eldra viðmóti fyrir viðmót íslenska upplýsingatæknifyrirtækisins. Fyrirtækið sérhæfir sig í að búa til viðmót fyrir vefsíður sem birtast í farsímum og öðrum handtækjum. Meðal viðskiptavina er skemmtivefurinn Collegehumor.com, sem nýtur allnokkurra vinsælda á heimsvísu og nú Ticketmaster.com, stærsti miðasöluvefur heims. Fyrirtækið er í öðru sæti á eftir Amazon.com í umfangi rafrænna viðskipta í heiminum.

„Það er satt að segja lygilegt að pínulítið sprotafyrirtæki uppi á Íslandi hafi landað þessum samningi,“ segir Þórarinn, en aðdragandi að viðmótsskiptum Ticketmaster hófst fyrir tæpum tveimur árum. Mobilitus fékk að taka þátt í og vann útboð verkefnisins hjá Ticketmaster. „Við unnum það bara á tækninni. Síðan náðist að semja um verð og undanfarna þrjá mánuði hefur þetta verið í virkri framleiðslu.“

Nýi samningurinn markar tímamót fyrir Mobilitus og segir Þórarinn að með þessu sé búinn til grunnur fyrir enn frekari vöxt fyrirtækisins. Tekjur komi til með að aukast þannig að fyrirtækið fari frá því að vera rekið á núllinu, yfir í að á rekstrinum verði allgóður hagnaður. Hann gæti numið tugum milljóna á þessu ári og enn meiru þegar fram í sækir, ef vel gengur.

Á skrifstofunni í Reykjavík eru nú fjórir starfsmenn í fullu starfi hjá Mobilitusi, en að auki eru þrír aðrir. „Ein er í fæðingarorlofi og einn týndur í Belgíu,“ gantast Þórarinn. Helsta vanda fyrirtækisins segir hann nú vera að finna rétta starfsfólkið í vöxtinn. Tæknivinnan sé að baki og nú hægt að byggja á þeirri lausn sem búin hafi verið til.

Þórarinn segir að hingað til hafi ríflega 30 þúsund manns komið daglega á farsímavef Ticketmaster.

„Við sjáum fram á að það tvö- til þrefaldist á næstu 18 mánuðum,“ segir hann og kveður fyrirtækið ekki síst horfa til þess að auglýsa farsímasöluna á auglýsingaspjöldum sínum. Þannig megi fá þá til að kaupa miða strax sem annars hefðu hætt við á leiðinni heim.

- óká





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×