Fastir pennar

Á eftir áætlun

Þorsteinn Pálsson skrifar

Pólitískt uppgjör í kosningum varð ekki umflúið eftir gjaldmiðils- og bankahrunið. Það er hins vegar rétt sem Geir Haarde, þáverandi forsætisráðherra, benti á að þau pólitísku átök sem eðlilega fylgja slíku uppgjöri myndu seinka endurreisninni og dýpka kreppuna.

Fyrsta endurskoðun á þeirri efnahagsáætlun sem ríkisstjórn Geirs Haarde samdi með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum átti að fara fram í febrúar. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ákvað að fylgja þessum grundvelli sem fyrri ríkisstjórn lagði. Henni tókst hins vegar ekki að ljúka fyrsta áfanga fyrr en nú.

Ástæðan er fyrst og fremst pólitískt sundurlyndi. Afleiðingin snýr beint að fólkinu. Lífskjarabati þess dregst einfaldlega á langinn.

Fróðlegt er að meta mismunandi viðbrögð forystumanna í stjórnmálum þegar þessum áfanga er loks náð svo löngu á eftir áætlun. Forsætisráðherra telur að björninn sé unninn. Þó að þetta sé skref í rétta átt er fögnuður forsætisráðherra yfirdrifnari en efni standa til.

Fjármálaráðherra hefur ekki barið sér á brjóst að sama skapi. Hver er skýringin á því? Sennilegasta ástæðan er sú að hann veit að aðeins hluti af þingflokki hans styður í raun þann grundvöll efnahagsstefnunnar sem felst í samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Þetta þýðir að fjármálaráðherra hefur ærna ástæðu til að óttast að hann hafi ekki nógu sterkt bakland til að geta staðið við þau fyrirheit sem hann gaf Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í bréfi frá því fyrr í þessum mánuði. Þar voru ársgömul loforð Sjálfstæðisflokksins í ríkisfjármálum og peningamálum ítrekuð og farið var fram á að lengja samstarfstímabilið.

Hættan á því að endurreisnaráætlunin dragist enn frekar á langinn felst einmitt í þessari hugmyndafræðilegu spennu innan stjórnarflokkanna. Að því leyti eiga efasemdir forystu stjórnarandstöðunnar um áframhaldandi framkvæmd áætlunarinnar við rök að styðjast.

Áherslur stjórnarandstöðuflokkanna eru hins vegar ólíkar. Sjálfstæðisflokkurinn virðist hafa svipuð viðhorf til samstarfsins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Samfylkingin. Framsóknarflokkurinn sýnist hins vegar standa nær vinstri armi VG af einhverjum óskiljanlegum ástæðum.

Stéttastríðshugmyndafræði

Hatrammar deilur standa nú um nokkurra vikna gamlan stöðugleikasáttmála. Skýringin er sú sama og lýtur að seinkun á AGS-áætluninni. Eftir að vinstri armur VG lét undan síga við lausn á Icesave-málinu verður flokksforystan að taka meira tillit til kröfugerðar frá þeirri hlið um skatta sem hamla atvinnuuppbyggingu og um hindranir gegn erlendri fjárfestingu í orkufrekum iðnaði.

Fjármálaráðherrann, þingflokksformaður VG og helsti talsmaður vinstri arms Samfylkingarinnar utan þings hafa allir gengið í skrokk á forseta ASÍ. Kjarninn í gagnrýni þeirra er sá að það sé pólitískt rétttrúnaðarbrot af verkalýðsforingjum að eiga samstarf við stéttaóvininn. Hér læðist fram hugmyndafræði sem flestir töldu að liðið hefði undir lok fyrir áratugum.

Sannleikurinn er sá að samvinna aðila vinnumarkaðarins hefur verið mikilvægasta stöðugleikakjölfestan í þjóðarbúskapnum. Þekktastir eru þjóðarsáttarsamningarnir frá 1990. Slíkt samstarf byggir á málamiðlunum.

Nú sýnist hitt vera talið mikilvægara að keyra stjórnarsamstarfið lengra til vinstri. Forystumennirnir virðast líta svo á að því verði ekki haldið saman með öðru móti. Stöðugleikasáttmálinn var í eðli sínu málamiðlun á miðjunni. Hún veldur greinilega of mikilli innri spennu í stjórnarsamstarfinu. Þar skilur á milli stöðunnar nú og 1990.

Samtök atvinnulífsins sýndu afar ábyrga afstöðu með því að segja ekki upp kjarasamningum þó að málefnagrundvöllur sáttmálans væri í uppnámi. Þeir forystumenn stjórnarflokkanna sem ráðist hafa á forseta ASÍ fyrir stéttasamvinnu telja augljóslega að þetta skapi ríkisstjórninni svigrúm til að hafna þeim pólitísku miðjulausnum sem stöðugleikasáttmálinn gerir ráð fyrir. Það kann að reynast hættulegt fyrir endurreisnina.

Stjórnin til vinstri en þjóðin á miðjunni

Kjarni málsins er sá að það er ekki nægjanlega breið pólitísk samstaða á Alþingi til þess að líklegt sé að endurreisn efnahagslífsins takist á þeim tíma sem að var stefnt. Sú framlenging sem ríkisstjórnin fór fram á við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn gæti hæglega verið upphaf að enn frekara undanhaldi.

Mikilvægt er að finna leiðir til að koma í veg fyrir það undanhald. Það getur að vísu svalað þorsta vígfimra stjórnmálamanna að dýpka gjána á milli manna. Það mettar hins vegar ekki hungur fólksins í landinu eftir festu og breiðri samstöðu um framgang mála.

VG er að færa ríkisstjórnarsamstarfið lengra til vinstri en leit út fyrir í byrjun þess. Samfylkingin fylgir fast á eftir. Sú hreyfing Samfylkingarinnar opnar að vísu svigrúm fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn á miðjunni. Hvort og þá hvernig þeir flokkar hyggjast nýta sér það svigrúm á eftir að koma í ljós.

Á meðan skilin í pólitíkinni á Alþingi skerpast með þessum hætti bendir þjóðmálaumræðan fremur til þess að fólkið í landinu vilji sjá breiðari samstöðu á miðju stjórnmálanna. Að óbreyttum valdahlutföllum verður núverandi staða ekki færð til eða brotin upp nema forsætisráðherra hafi hug á því. Fátt bendir til að svo sé.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×