Skoðun

Ný sérkennslustefna leikskóla

Forgangsmál í leikskólum borgarinnar er að hvert barn fái þjónustu við sitt hæfi. Ef grunsemdir vakna um að sérkennslu sé þörf er strax sett af stað athugun í leikskólanum og starfsfólk hefur tafarlaust vinnu með barninu. Þetta er svokölluð snemmtæk íhlutun en hún miðar að því að skólinn grípi inn í strax og grunsemdir vakna um þroskafrávik. Í nýrri stefnu leikskólasviðs um sérkennslu, sem leikskólaráð samþykkti á fundi sínum í haust, er þetta markmið staðfest enda er það mikilvægt til að ná árangri með börnum sem þurfa stuðning.

Í stefnunni kemur fram að við hvern leikskóla borgarinnar verði ábyrgðarmaður sérkennslu og lögð áhersla á að einstaklingsnámskrá verði gerð fyrir öll börn sem þarfnast sérkennslu. Stefnt er að fjölgun leikskóla með sérhæfða þekkingu vegna þjónustu við börn með fötlun en þeir eru nú tveir í Reykjavík. Sérhæfðu leikskólarnir eiga að vera í fararbroddi við þekkingaröflun á sínu sérsviði og miðla þekkingu. Áhersla er lögð á að efla markvisst samstarf leik- og grunnskóla og stuðla þannig að meiri samfellu á milli þeirra. Þá er lagt til að settur verði á stofn upplýsingavefur sem haldi utan um og miðli hugmyndum og leiðum sem notaðar eru í sérkennslu og að sérhæft námsgagnasafn til útláns verði hjá sérkennsluráðgjöfum. Einnig er lagt til að hafið verði tilraunaverkefni vegna langveikra barna með heimsóknum barna og kennara heim til barns. Á næstu árum er stefnt að því að byggð verði upp breiðari þekking á þjónustumiðstöðvum og sérfræðingar fengnir úr fleiri faggreinum, s.s. talmeinafræðingar og iðjuþjálfar, svo börn með mikil þroskafrávik fái samþætta aðstoð.

Stefna leikskólasviðs um sérkennslu er aðgengileg á vef borgarinnar (www.leikskolar.is) og þar geta forráðamenn aflað sér upplýsinga um hver réttur barna þeirra er og hvernig fjármagni er úthlutað. Sérkennsla er hluti af þeirri grunnþjónustu sem borgarstjórn vill tryggja og því er mikilvægt að allar reglur séu skýrar og tryggi jafnræði í þjónustu milli barna.

Höfundur er borgarfulltrúi.






Skoðun

Sjá meira


×