Innlent

Óttast áform um ríkisumsjá fyrirtækja

Bjarni Benediktsson Kveðst óttast þá lífsskoðun vinstrimanna að fyrirtæki séu betur komin hjá hinu opinbera en einstaklingum. fréttablaðið/anton
Bjarni Benediktsson Kveðst óttast þá lífsskoðun vinstrimanna að fyrirtæki séu betur komin hjá hinu opinbera en einstaklingum. fréttablaðið/anton
stjórnmál Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, geldur varhug við frumvarpi fjármálaráðherra um stofnun eigna­umsýslufélags. Því er ætlað að taka yfir rekstur „þjóðhagslega mikilvægra“ fyrirtækja sem lent hafa í miklum rekstrarerfiðleikum og eru að hluta eða öllu leyti komin í eigu fjármálastofnana. Bjarni segir að stjórnvöldum séu veittar of víðtækar heimildir til að meta hvaða fyrirtæki teljist þjóðhagslega mikilvæg. Í frumvarpinu eru þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki sögð sinna mikilvægum almanna- eða öryggishagsmunum og að stöðvun þeirra myndi valda verulegri röskun í þjóðfélaginu öllu. Þá er kveðið á um að Seðlabankinn og aðilar vinnumarkaðarins veiti umsögn um þau viðmið sem leggja skuli til grundvallar því að fyrirtæki geti talist þjóðhagslega mikilvæg í skilningi laganna. Bjarni segir þingsins en ekki annarra að ákvarða slíka skilgreiningu. „Það sem maður óttast fyrst og fremst er að það er lífsskoðun vinstrimanna að mörg fyrirtæki séu betur komin undir hatti stjórnvalda heldur en í höndum einstaklinganna. Þegar svona hugmyndir með svona opnar skilgreiningar koma fram þá er ástæða til að hafa allan varann á.“ Þó að Bjarni sé til viðræðu um breytingu á frumvarpinu er hann þeirrar skoðunar að bankarnir geti annast rekstur fyrirtækja í vanda og endurskipulagningu þeirra. Ekki hafi komið fram efnisleg rök fyrir hinu gagnstæða. - bþs


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×