Innlent

Segir forsætisráðherra sýna ábyrgðarleysi

Guðlaugur Þór Þórðarson
Guðlaugur Þór Þórðarson

„Forsætisráðherra sagði það afdráttarlaust að það ætti að fara í aðgerðirnar en er alveg áhyggjulaus um afleiðingarnar og það er eins óábyrgt og það getur orðið,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Hann spurði Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á Alþingi í gær hvaða áhrif það hefði á greiðslugetu sjávarútvegsfyrirtækjanna ef farin yrði svokölluð fyrningarleið. Samkvæmt henni myndi ríkið yfirtaka veiðiheimildirnar á allt að tuttugu árum. Þær myndu því fyrnast um fimm prósent á ári hjá þeim sem nú hafa þær.

„Það eina sem ég uppskar var að hún lofaði að fara þessa leið en ég var ekki að spyrja um það,“ segir Guðlaugur. „Þetta er mjög sérstakt því miðað við þær forsendur sem liggja fyrir, og hefur meðal annars verið greint frá í Fréttablaðinu, þá þýðir þetta það að sjávarútvegsfyrirtækin, sem skulda á bilinu 400 til 500 milljarða, munu ekki ráða við þessa skattheimtu og fara í þrot og ekki nóg með það heldur taka bankana með sér.“

Jóhanna segir í samtali við Fréttablaðið að vel sé hægt að fara þessa leið án þess að sjávarútvegsfyrirtækin kikni undan og að hún taki málflutningnum um afleiðingar fyrningarleiðarinnar sem hræðsluáróðri þeirra sem eru leiðinni mótfallnir. Til dæmis hafi útgerðin mætt um þrjátíu prósenta skerðingu aflaheimilda árið 2007 og fyrningarleiðin sé afar hófstilltur niðurskurður í því samhengi. „Það verður farið í þetta í samvinnu við útgerðina og með þeim hætti að það ættu allir að getað lifað við það,“ segir hún. - jse



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×