Viðskipti innlent

Bara helmingur í hús

Móðurfélag hlutabréfamarkaðarins í Dúbaí leitar logandi ljósi að endurfjármögnun á láni vegna yfirtöku á sænsku kauphallarsamstæðunni OMX.Markaðurinn/AFP
Móðurfélag hlutabréfamarkaðarins í Dúbaí leitar logandi ljósi að endurfjármögnun á láni vegna yfirtöku á sænsku kauphallarsamstæðunni OMX.Markaðurinn/AFP

Allt stefnir í að Borse Dubai, sem rekur kauphöllina í Dúbaí, nái aðeins að endurfjármagna helming þess láns sem tekið var vegna yfirtöku á sænsku kauphallarsamstæðunni OMX síðla árs 2007.

Lánið er á gjalddaga í lok mánaðar og hljóðar upp á 2,5 milljarða Bandaríkjadala, jafnvirði 285 milljarða íslenskra.

Bloomberg-fréttaveitan hefur eftir heimildum að nýja lánið, sem verið sé að semja um, hljóði upp á 1,1 til 1,5 milljarða dala. Það sé með 325 punkta álagi yfir Libor-vöxtum að viðbættu allt að 200 punkta álagi. Til samanburðar var álagið á fyrra láninu 130 punktar.

Innan OMX var Kauphöll Íslands. Eftir yfirtökuna sömdu Borse Dubai og bandaríski Nasdaq-markaðurinn um sameiningu undir einu merki. Arabíska félagið á um fimmtungshlut í Nasdaq OMX.

Bloomberg bendir á að staða Dúbaí sé óburðug eftir hraða uppbyggingu síðustu árin sem knúin hafi verið áfram af lántökum. Ljóst sé að fleiri ríkisfyrirtæki verði að feta í fótspor Borse Dubai því lán upp á fimmtán milljarða dala sé á gjalddaga í ár.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×