Körfubolti

Síminn stoppaði ekki hjá Einari Árna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Einar Árni Jóhannsson er ekki orðinn þjálfari Snæfells.
Einar Árni Jóhannsson er ekki orðinn þjálfari Snæfells. Mynd/Arnþór
Karfan.is birti skemmtilegt og vel heppnað aprílgabb á heimasíðu sinni í gær þegar sagt var að Einar Árni Jóhannsson væri tekinn við liði Snæfells. Mikið var lagt í fréttina og meira segja birt stutt viðtöl við bæði Einar og Sæþór Þorbergsson formann körfuknattleiksdeildar Snæfells.

Það fylgir sögunni að síminn stoppaði ekki hjá Einari Árna í allan gærdag enda kom þessi frétt flatt upp á marga en um leið á frábærum tíma. Snæfellingar duttu út úr úrslitakeppninni daginn áður og Einar Árni var búinn að tilkynna að hann væri hættur með Breiðablik.

„Við viljum biðja alla afsökunar á þessu enda hefur karfan.is þá stefnu að skrifa áreiðanlegar fréttir en einu sinni á ári er 1. apríl og þá leyfum við okkur svona. Við vonum að enginn hafi hlotið skaða af og fólk fyrirgefi okkur að hafa aprílgabb þar sem fólk þurfti ekki að mæta neinsstaðar eða hafa samband við einhvern, semsagt ekki að „hlaupa" 1. apríl," segir á heimasíðu Karfan.is.

Hér má sjá fréttina á Karfan.is í gær um að Einar Árni væri tekinn við Snæfelli.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×