Fastir pennar

Fólk þarf að eiga sér viðreisnar von

Óli Kristján Ármannsson skrifar

Í þeim aðstæðum sem þjóðin stendur nú frammi fyrir eftir að fjármálakerfi landsins hefur orðið alþjóðlegu fjármálakreppunni að bráð og óvissa ríkir um framtíðarhorfur margra ríður á að huga að því hvernig þjóðfélagið verður reist við á ný. Í þeim efnum er að mörgu að hyggja. Eitt er uppgjör við fortíðina.

Meðal þess sem skoða þarf er hver raunveruleg staða bankanna var undir lok síðasta mánaðar. Hvort þeim hafi í raun verið allar bjargir bannaðar og eigendur þeirra nú í sporum gjaldþrota manna sem kenna öllum öðrum en sjálfum sér um hrakfarirnar, sér í lagi bankanum sínum, líkt og Geir H. Haarde sagði í tíufréttum Sjónvarps 29. þessa mánaðar.

Að slíkri skoðun þurfa að koma erlendir sérfræðingar sem fjallað geta hlutlaust um mál án þess að vera plagaðir af tengslum og smæð íslenska kunningjasamfélagsins og eru engum háðir. Með skipan umdeildra stjórnmálamanna í stól seðlabankastjóra geta stjórnmálamenn sjálfum sér um kennt að grunur vakni um annarlegar hvatir í mikilsverðum ákvörðunum um framtíð bankanna.

Samhliða öllu uppgjöri þarf svo að huga að því hvernig við ætlum að fá byggt hér upp samfélagið á ný. Margt bankafólk sem núna stendur frammi fyrir tekjutapi í kjölfar atvinnumissis hefur líka tapað verulegum fjárhæðum vegna fjárfestinga í hlutabréfum sem eru orðin verðlaus við fall bankanna. Sama á við um fjölda einstaklinga. Gjaldþrot blasir víða við. Þarna er ekki um að ræða óreiðufólk sem ekki hefur staðið í skilum, heldur eru þarna fórnarlömb einstakra aðstæðna í fjármálaheiminum, líkt og segja má að bankarnir hafi verið.

Í Bandaríkjunum eru til fordæmi þess að dómstólar fjalli um einstök gjaldþrotamál og létti, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, skuldbindingum af þeim sem orðið hafa gjaldþrota þannig að þeir geti hafið uppbyggingu eigin lífs á ný. Hreyft hefur verið við hugmyndum um að búa hér til einhverja slíka leið.

Líkast til myndi þetta kalla á sérstaka, jafnvel tímabundna lagasetningu, þar sem gjaldþrotadómstóll fengi úrskurðarvald í málum gjaldþrota einstaklinga og legði mat á hvort um sé að ræða gjaldþrot af ytri aðstæðum eða vegna óreiðu.

Aðgerða er þörf til þess að fórnarlömb fjármálahrunsins geti átt sér hér einhverja framtíð, án þess að vera hundelt af kröfuhöfum og þurfi ekki að flýja land til að byggja upp tilveru sína á ný. Þarna er ungt og duglegt fólk sem þjóðin þarf á að halda við framtíðarverðmætasköpun. Fólk sem lendir í gjaldþroti við hrun hagkerfisins verður að eiga sér viðreisnar von.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×