Bakþankar

Blind og geld

Karen D. Kjartansdóttir skrifar

í október var Davíð Oddsson seðlabankastjóri spurður að því í Kastljósi hvort til greina kæmi að hann léti af embætti. Því svaraði Davíð: „Það hefur enginn nefnt það við mig en ég hef bara svona séð þetta en ef ég teldi mig hafa unnið til þess þá væri það sjálfsagt."

Albert Guðmundsson sagði af sér ráðherraembætti 1987 vegna greiðslna sem fyrirtæki hans fékk frá Hafskip og höfðu ekki verið taldar fram. Guðmundur Árni Stefánsson sagði af sér embætti heilbrigðisráðherra árið 1994 eftir harða gagnrýni á embættisfærslur. Árni Johnsen segir af sér þingmennsku 2001 og var í kjölfarið dæmdur fyrir auðgunarbrot. Þórólfur Árnason borgarstjóri tók á sig syndir olíufélagana árið 2004 og sagði af sér. Bjarni Harðarson sagði svo af sér þingmennsku eftir að hafa orðið á tæknileg mistök í bókstaflegri merkingu. Guðni Ágústsson fylgdi svo á eftir Bjarna og segir af sér formennsku í framsókn og þingmennsku vegna þess að hann taldi að endurreisn yrði ekki í flokknum án breytinga á forystu.

Robert Z. Aliber, prófessor sem hefur sérhæft sig í kreppum, segir að hvergi í heiminum hafi jafn alvarleg bankakreppa riðið yfir og hér stefnir í. Staðan hafi verið með ólíkindum og efnahagur bankana var um það bil tólf sinnum meiri en landsframleiðslan. Ótrúlegt væri að enginn hefði gripið í taumana af þeim sem áttu að bera ábyrgð, svo sem eigendur, eftirlitsaðilar eða ráðamenn. Enginn hefði hlustað á varnaðarorð.

Það hriktir í stoðum íslensks samfélags. Hvað gerir Geir Haarde? Hann stofnar nefnd um Evrópumál, leyfir sér að vefengja fullyrðingu fréttamanns um að þjóðin hafi orðið beðið ómælanlega álitshnekki með uppgerðarflónsku og dónaskap. Hann sér enga ástæðu til að segja af sér ekki frekar en Árni Mathiesen, Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra og Jónas Fr. Jónsson forstjóri fjármálaeftirlitsins. Allir líta þeir á sig sem áhrifamenn og leyfa sér að neita svara eða láta eins og svalir tappar í tónlistarblöðum. Ingibjörg Sólrún sér heldur enga þörf á afsögnum og finnst krafan jafngilda því og að kasta skylmingaþrælum fyrir ljón. Ætli við séum þá ekki ýðurinn sem vill brauð og leika.

Ef til vill gæti Framsóknarflokkurinn náð fylgi í næstu kosningum með slagorðinu „Framsókn, flokkur sem axlar ábyrgð." Að minnsta kosti gerir það enginn annar.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×