Bakþankar

Uggur

Þórgunnur Oddsdóttir skrifar

Börn hræðast oft ótrúlegustu hluti. Sem krakki var ég til dæmis svolítið hrædd um detta ofan í klósettið og skolast niður, ég þorði ekki að snúa mér í of marga hringi í rólunni af ótta við að fá garnaflækju og á aðventunni var ég smeyk um að rekast á jólaköttinn á förnum vegi. Með auknum þroska hef ég lært að yfirleitt var þessi ótti algjörlega órökrænn og í dag hræðist ég fæst það sem olli mér martröðum í bernsku. Nú eru

hins vegar farnar að renna á mig tvær grímur á ný.

Ég var sjö ára gömul þegar þættirnir um Nonna og Manna voru sýndir í sjónvarpinu og hafði þá nýlega lokið við að lesa bókina Á skipalóni eftir Nonna. Nonnabækurnar þóttu mér aldrei skemmtilegar en frásögnin af baráttunni við hvítabirnina sem gengu á land við Skipalón var eftirminnileg og fékk hárin til að rísa. Myndræn framsetning sjónvarpsþáttanna jók síðan enn á óttann svo litla barnssálin var svolítið hvekkt eftir áhorfið.

Búandi í næsta nágrenni við Skipalón og Möðruvelli var ég logandi hrædd við að vera á ferli utandyra af ótta við að rekast á illúðlega hvítabirni. Að lokum taldi ég mér trú um að frásögn Nonna í bókinni væri helber lygi sett í enn lygilegri búning í sjónvarpsþáttunum. Hvítabjörn myndi aldrei stíga á land í blómlegum byggðum Eyjafjarðar.

Lokaþáttur sjónvarpsseríunnar sannfærði mig síðan enn frekar. Þar var eldgos látið ógna bænum á Skipalóni sem mér þótti arfavitlaust. Þótt ekki væri ég há í loftinu vissi ég nefnilega að slíkt gæti aldrei gerst enda óralangt í næsta eldfjall. Þetta stílfærða atriði renndi stoðum undir þá kenningu mína að hvítabjarnarsagan væri einnig uppspuni frá rótum og ég hugsaði ekki meira um bjarnarárásir þann veturinn.

Og hvað gerist svo? Jú mörgum árum síðar þegar ég er ekki aðeins vaxinn upp úr óttanum heldur farin að hlæja að honum í þokkabót kemur í ljós að hann var alls ekki svo kjánalegur. Fyrst hvítabirnir eru farnir að spássera um í Skagafirðinum hefði ég vel getað rekist á einn slíkan í nágrenni Skipalóns í æsku. Ef ég væri sjö ára núna og nýbúin að horfa á þættina um Nonna og Manna myndi ég fela mig undir rúmi.

Hvað næst? Eftir atburði vikunnar kemur ekkert mér á óvart. Ég á allt eins von á því að sjálfur jólakötturinn sjáist á vappi á næstunni. Þá mega menn mín vegna hafa byssurnar til reiðu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×