Fastir pennar

Fram og aftur blindgötuna

Guðmundur Andri Thorsson skrifar
Þegar þetta er skrifað á sunnudagsmorgni liggur afsögn Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar í loftinu. Eftir hundrað daga hlé er nú allt sem áður og ljóst að sjálfstæðismenn áttu eftir að ljúka REI-málinu. Viðtölin eru pínlega lík: nei, ég minnist þess ekki... nei nei, það voru ekki þessir samningar sem ég hafði ekki séð heldur hinir... nei ég átti ekki við þennan borgarlögmann heldur hinn... Fokinn af reynslu

Af aðdáunarverðri þrautseigju hefur vesalings Vilhjálmur haldið áfram að hrekjast fram og aftur í blindgötu eigin málflutnings.

Ekki er hægt að segja að hér hafi reynsluleysi háð honum: kannski frekar að reynslan hafi orðið honum að falli; hann sé fokinn af reynslu. Vilhjálmur er einn reyndasti sveitarstjórnarmaður á landinu - ef ekki sá reyndasti.

Hann er öllum hnútum kunnugur og hefur starfað áratugum saman að sveitastjórnarmálum, og meðal annars stýrt Sambandi íslenskra sveitarfélaga með þeim hætti að almenn sátt var um. En þrátt fyrir ýmsar vegtyllur og stöðu nærri þeim sem með völdin hafa farið þá hefur hann í raun og veru staðið álengdar við valdið öl þessi ár, og fylgst með. Og þegar loksins kom að honum að stjórna þá notaði hann vitaskuld þær aðferðir sem tíðkast höfðu við stjórn borgarinnar eins og embætti borgarstjóra hafði mótast í meðförum sjálfstæðismanna. Hann stóð í þeirri meiningu að nú væri komið að sér að stjórna eins og Davíð gerði - með nokkra trúa og auðsveipa ráðgjafa í kringum sig og taka ákvarðanir snöggt og endanlega og ráðgast við eins fáa um þær og nokkur kostur væri. Deila svo og drottna jafnt meðal andstæðinga og samherja.

Eða hvenær hefði hvarflað að nokkrum manni að svo mikið sem spyrja Davíð að því hvort hann hefði umboð til ákvarðana og samninga?

Ýmislegt varð til þess að Vilhjálmur komst ekki upp með þennan stjórnunarstíl. Í fyrsta lagiu er hann ekki Davíð, hefur ekki til að bera myndugleik hans, klókskap og innsýn í mannlegt eðli.

Og í öðru lagi komst Davíð sjálfur ekki upp með að vera Davíð undir það síðasta. Hið frámunalega ráðríki gekk ekki lengur, og má jafnvel segja að það hafi orðið honum að falli hvernig hann gerði Íslendinga að (einhvers konar) þátttakendum í Íraksstríðinu og þar með að aðhlátursefni um víða veröld, og ekki síður tilraunir hans til að hlutast til um eignarhald á fjölmiðlum. Nú eru aðrir tímar: Ungt og vel menntað fólk í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna lætur ekki bjóða sér þá stjórnarhætti sem tíðkuðust á einveldisskeiði Davíðs.

Í þriðja lagi virðist Vilhjálmur ekki hafa áttað sig fyllilega á mótsagnakenndri afstöðu sjálfstæðismanna til útrásargosanna. Enda ekki von. Þetta er frekar ruglingslegt: þeir sjálfstæðismenn sem vilja að verðmæti í almenningseigu komist í hendur einkaaðila - vilja t.d. einkavæða Orkuveituna - þeir eru eiginlega samt á móti því. Þeir aðhyllast kapítalisma en eru á móti kapítalistum. Þeir vilja ráða því hverjir fá að njóta gæðanna: sennilega myndu þeir helst vilja selja Herði Sigurgestssyni og Kristjáni Ragnarssyni Orkuveituna - en yngri mönnum treysta þeir síður. Að minnsta kosti ekki Hannesi Smárasyni og alls alls alls alls ekki Jóni Ásgeiri.

Í fjórða lagi nýtur Vilhjálmur ekki tiltrúar almennings lengur. Í viðtölum þarf hann sífellt að kljást við vantrúarsvipinn á fréttamönnum, og klækir hans við að lokka Ólaf F. Magnússon yfir til sjálfstæðismanna vöktu almenna hneykslan. Rétt eins og félagi hans Ólafur F. Magnússon má búa við næstum ógreinanlegan og hárfínan háðstón í frásögnum fréttamanna af málflutningi hans og framgöngu þá þarf Vilhjálmur að sæta því hér eftir að þurfa í sífellu að byrja á því að sanna að hann sé ekki að skrökva - hvað svo sem hann er að tala um.

Réttu samferðamennirnir?

Og loks verður ekki annað sagt en að REI-málið sé klúður, að svo miklu leyti sem hægt er að skilja það. Það verður til í ákveðnu andrúmslofti gagnkvæmrar sefjunar stjórnmálamanna og auðmanna um að ofsagróði sé í

vændum fyrir alla; borgarbúa, starfsmenn Orkuveitunnar, hirðmenn stjórnmálamannanna og auðmennina. Hugmyndin var sú að íslenskir jarðvísindamenn hafi vald á einhverjum launhelgum sem engir aðrir beri skynbragð á og geti leitt heiminn í því að virkja jarðorku. Enginn efast um hæfni þessara vísindamanna en aðferðin við að virkja þessa hæfni orkar hins vegar tvímælis og ekki síður hitt að hafa að leiðarljósi hugmyndina um hinn auðfengna gróða sem Íslendingar hafa stundum farið flatt á.

Eða voru mennirnir sem seldu þjóðinni bréfin í Decode á sínum tíma réttu samferðamennirnir í þessari vegferð?



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×