Handbolti

Einar: Árangurinn kemur okkur ekki á óvart

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Einar Jónsson á verðlaunaafhendingunni í dag.
Einar Jónsson á verðlaunaafhendingunni í dag. Mynd/E. Stefán

Staða Fram í N1-deild kvenna hefur kannski komið einhverjum á óvart en þó ekki þjálfara liðsins, Einari Jónssyni.

Einar var valinn besti þjálfarinn í fyrstu níu umferðunum í N1-deild kvenna á blaðamannafundi sem HSÍ hélt í dag. Besti línumaðurinn og besti leikmaðurinn var valin Pavla Nevarilova hjá Fram.

„Árangurinn er á áætlun miðað við þau markmið sem við settum okkur," sagði Einar við Vísi. „Hann er kannski framar væntingum annarra enda var okkur spáð fimmta sætinu. Við erum nú í öðru sæti og enn taplaus."

Hann segir að deildin hafi farið mjög vel af stað og það sé enginn leikur auðveldur.

„Það eru fimm frábær lið sem eru að berjast í efri hlutanum og hin liðin sem koma á eftir eru líka mjög sterk. Þetta er svipað og í karladeildinni, nánasti hver einasti leikur er mjög erfiður."

„Þá hafa Valur og Stjarnan náð fínum árangri í Evrópukeppninni sem segir okkur að við erum sífellt að nálgast sterkari deildirnar í Evrópu. Þeir útlendu leikmenn sem koma hingað eru líka hágæðaleikmenn enda dugir ekkert minna til."

Aðspurður um stöðu íslenska landsliðsins segir Einar að árangur liðsins á æfingamóti í Hollandi á dögunum megi skrifa á kynslóðaskipti sem virðast eiga sér stað innan liðsins. Íslenska liðið tapaði öllum sínum leikjum á mótinu.

„Á mótinu í Hollandi voru miklar breytingar á landsliðinu og ég sá margt jákvætt í þessum leikjum. En það er alveg ljóst að það þarf að laga mjög mikið líka."

Einar segir að HSÍ þurfi að setja skýr markmið fyrir landsliðið og fá leikmenn og þjálfara liðanna í deildinni á sitt band. „Það þurfa allir að vera samstíga í þessum efnum. Við þurfum að gera landsliðsumhverfið betra og stefna mjög hátt á þessum vettvangi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×