Innlent

Fjörugar umræður í Silfrinu

Bjarni Harðarson, nýr þingmaður Framsóknarflokks, segir meiri grundvöll fyrir því að Framsóknarflokkurinn fari í vinstri stjórn heldur en að hann haldi áfram í núverandi stjórnarsamstarfi. Þeir Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður Vinstri grænna, og Össur Skarphéðinsson, þingflokksformaður Samfylkingar, sökuðu hvorn annan í Silfri Egils í dag um að stíga í vænginn við Sjálfstæðisflokkinn um leið og þeir báðir töluðu blíðlega til sjálfstæðismanna.

 

Samfylkingin og Vinstri grænir eiga það sammerkt að hafa aldrei átt aðild að ríkisstjórn. Auðheyrt er af fyrstu viðbrögðum forystumanna þeirra að báðir flokkar leggja ofurkapp á að breyta þeirri stöðu. Stjórnarandstöðunni mistókst hins vegar að fella ríkisstjórnina og því er eina von þessara flokka um stjórnaraðild einhverskonar samstarf sem annar ríkisstjórnarflokkanna yrði að taka þátt í.

 

Liðsmenn vinstriflokkanna voru þegar í dag mætti í Alþingishúsið til skrafs og ráðagerða og vakti athygli að formennirnir, þau Ingibjörg Sólrún og Steingrímur J., ræddu þar saman einslega. Í Silfri Egils í dag kom hins vegar berlega í ljós tortryggni milli flokkanna vegna meints áhuga beggja á stjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokki. Þeir Ögmundur Jónasson og Össur Skarphéðinsson töluðu báðir blíðlega til Sjálfstæðisflokks og var augljós pirringur þeirra á milli. Varaformaður Sjálfstæðisflokks gaf hins vegar til kynna að stjórnarflokkarnir gætu vel haldið áfram.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×