Fótbolti

Tottenham - Braga í beinni á Sýn í kvöld

Robbie Keane var á skotskónum í fyrri leiknum gegn Braga
Robbie Keane var á skotskónum í fyrri leiknum gegn Braga NordicPhotos/GettyImages

Síðari leikur Tottenham og Braga í 16-liða úrslitum Evrópukeppni félagsliða verður sýndur beint á Sýn í kvöld klukkan 20:05. Enska liðið vann fyrri leikinn í Portúgal 3-2 og er því í ágætri stöðu fyrir þann síðari, en mikil meiðsli eru í herbúðum heimamanna.

Tottenham hefur þannig aðeins einn eiginlegan miðvörð í hópnum í kvöld. Michael Dawson verður á sínum stað í hjarta varnarinnar, en þeir Ledley King og Anthony Gardner eru meiddir og verða ekki með næstu vikurnar. Portúgalski miðvörðurinn Ricardo Rocha má ekki spila með Tottenham í Evrópukeppninni og því verður franski bakvörðurinn Pascal Chimbonda að taka stöðu miðvarðar í kvöld.

Framherjinn Robbie Keane kemur aftur inn í lið Tottenham eftir leikbann en þeir Jermaine Jenas, Danny Murphy, Paul Robinson og Benoit Assou-Ekotto eru allir meiddir. Þá er óvíst hvort Dimitar Berbatov getur spilað í kvöld vegna nárameiðsla og verður jafnvel hvíldur fyrir deildarleik gegn Watford á laugardag og síðari bikarleikinn gegn Chelsea á mánudag.

Það verður væntanlega góð stemming á White Hart Lane í kvöld þar sem stuðningsmenn Tottenham munu heimta sigur á portúgalska liðinu sem í heimalandinu er kallað "Los Arsenalistas" vegna sögulegra tengsla sinna við erkifjendur Tottenham á Englandi - Arsenal. Það verður Hörður Magnússon sem lýsir leiknum beint á Sýn í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×