Fótbolti

Valdi mest spennandi kostinn

Líst vel á allt í kringum nýja klúbbinn sinn.fréttablaðið/daníel
Líst vel á allt í kringum nýja klúbbinn sinn.fréttablaðið/daníel

Miðjumaðurinn Stefán Gíslason skrifaði í gær undir fimm ára langan samning við danska úrvalsdeildarliðið Bröndby. „Það er mikill léttir að vera búinn að klára þetta og ég er mjög sáttur,“ sagði Stefán en félagið hefur fylgst með honum í nokkurn tíma.



Stefán var seldur frá Lyn í Noregi þar sem hann hefði orðið samningslaus í haust. „Það voru nokkur félög sem sýndu mér áhuga en mér fannst Bröndby vera mest spennandi kosturinn og það var alltaf fyrsti kostur hjá mér. Ég lít á þetta sem skref upp á við fyrir mig. Ég var búinn að ákveða að færa mig um set frá Lyn fyrir nokkru síðan,“ sagði Stefán.



Stefán skoðaði sig um hjá félaginu í gær og leist vel á það sem hann sá. „Þetta lítur virkilega vel út. Allar aðstæður eru eins og best verður á kosið og hér er mikið um hefðir. Markmiðin hjá klúbbnum eru skýr og metnaðurinn er mikill. Bröndby lenti í sjötta sæti á síðasta tímabili sem er versta gengið er mér sagt síðan félagið var stofnað. Ég held að mér muni líða vel hér,“ sagði Stefán.



Talið er að kaupverðið á Stefáni nemi allt að 110 milljónum íslenskra króna. Lyn sá þann kostinn vænstan að selja Stefán til að missa hann ekki frítt í haust en félagið gaf það út að það vildi aldrei missa landsliðsmanninn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×