Viðskipti innlent

Frændgarður í Færeyjum

Ég hef setið sveittur við það þessa vikuna að skrá hvert einasta andskotans snitti í allri ættinni fyrir hlut í Færeyjabankanum. Meira segja þeir sem eru óstaðsettir í hús samkvæmt þjóðskrá ætla að kaupa.

Þetta verður fínt, en þeir í Lansanum hafa ekki verið að auðvelda manni lífið við þetta. Krafan um að menn eigi vörslureikning hjá þeim fyrir rafrænu viðskiptin var algjörlega fáránleg og kostaði þvílíka aukavinnu fyrir greiðvikna menn eins og mig sem eru að kaupa fyrir heilu ættirnar.

Jæja, allavega á maður von á því að gengið á þessu hækki og ekki ólíklegt að kjölfestan í bankanum myndist fljótt. Kæmi mér ekki á óvart að einhverjir mógúlar með vörslureikning í Landsbankanum yrðu fljótir að koma sér í lykilstöðu. Ég er ekki viss um að Færeyingar muni eiga bankann lengi í viðbót. Nema svona kallar eins og Jákúp í Rúmfatalagernum og einhverjir slíkir sem hafa grætt pening í útlöndum láti til sín taka.

Jæja, þá græðir maður bara á því eins og því að hafa keypt áfram í Actavis. Það kemur pottþétt hærra tilboð frá Bjögga í bréfin. Ég held að þetta sé leikrit þar sem löngu er búið að skrifa handritið. Bjöggi mun svo sennilega skuldsetja félagið hraustlega og selja það síðan með góðum hagnaði. Hann er fjandi glúrinn strákurinn, en hlutverk manna eins og mín er að vera glúrnir líka og græða á því þegar þeir stóru leika leikina sína. Þannig virkar maður eins og verndarhjúpur fyrir litlu hluthafana, sem er hlutverk sem fellur vel að minni manngerð.

Spákaupmaðurinn á horninu





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×