Fótbolti

Ég er kominn í rétta stöðu

Bjarni Guðjónsson fagnar hér marki með Skagamaönnum en hann hefur verið að leika vel í sumar.
Bjarni Guðjónsson fagnar hér marki með Skagamaönnum en hann hefur verið að leika vel í sumar.

Skagamenn innbyrtu sinn fyrsta sigur á sunnudagskvöld þegar KR kom í heimsókn. Bjarni Guðjónsson átti frábæran leik fyrir ÍA. Var sem kóngur á miðjunni, stýrði spili ÍA eins og hershöfðingi, sinnti varnarskyldunni vel og skoraði mark.

„Við höfum lagt upp með að spila góðan fótbolta síðan kallinn tók við og æfingarnar í vetur voru byggðar upp á fótbolta og lítið um hlaup. Það er rétt stefna að mínu mati," sagði Bjarni en ÍA lék engan kraftabolta gegn KR heldur hraðan og léttleikandi fótbolta.

Smá áherslubreytingar voru á leik ÍA en Helgi Pétur var djúpur fyrir aftan Bjarna og Jón Vilhelm og segir Bjarni að þetta leikkerfi henti sér mjög vel.

„Þessi staða hentar mér betur en þær stöður sem ég spilaði áður. Nú get ég farið meira fram á við og það hentar mér betur," sagði Bjarni sem hefur mikla ábyrgð í liðinu en honum líkar það vel. „Ég geri þá kröfu á sjálfan mig að spila vel og við reynslumeiri mennirnir eigum að draga vagninn. Það er bara sjálfsögð krafa."

Það gekk afar illa hjá ÍA að fá erlendan liðsstyrk fyrir mótið en að lokum komu tveir sterkir Króatar sem hafa þegar sett mikinn svip á ÍA-liðið. „Það skiptir öllu að fá þessa menn inn enda sárvantaði okkur slíka menn. Hefðu þeir komið fyrr þá værum við ofar í deildinni," sagði Bjarni sem telur ekki að FH muni stinga af enda hafi ÍA og Fylkir sýnt hvað sé hægt að gera gegn FH.

Það hefur mikið verið talað um skort á vel spilandi miðjumönnum í íslenska landsliðinu og mörgum finnst það skrítið að Eyjólfur gangi fram hjá mönnum á borð við Bjarna og bróður hans, Jóhannesi Karli.

„Ég tók þá ákvörðun sem atvinnumaður að hætta að svekkja mig á því þegar ég er ekki valinn í landsliðið. Þegar ég var atvinnumaður var það gríðarlega svekkjandi að vera ekki valinn en er það ekki lengur," sagði Bjarni sem hefur síður en svo gefið það upp á bátinn að leika aftur með landsliðinu. „Ég hef ekki lagt landsliðsskónum en velti mér ekki upp úr því þó ég sé ekki valinn. Ég gef enn kost á mér og yrði ánægður ef kallið kæmi," sagði Bjarni Guðjónsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×