Bakþankar

Biljónsdagbók 3.6. 2007

OMXI15 var 8.178,27 í morgun, þegar ég bað Halla að ganga frá yfirtökutilboði í Reyktjaldagerðina, og S&P500 var 1.503,23 þegar Iwaunt Moore hringdi frá London og sagði að ég yrði að koma strax út til að róa útlendu fjárfestana í Asian Viking Ventures. Ég sagðist þurfa að ræsa áhöfnina og yrði kominn út á Reykjavíkurflugvöll eftir 30 mínútur. Ég sæi nýju einkaþotuna mína út um stofugluggann á Smáragötunni.

Ég sagði þetta við Iwaunt af því að í hálft ár er ég búinn að láta hann og aðra útlenda bissness partners halda að ég hafi einkaþotu til umráða. Það gefur allt aðra attitjúd. En ég hefði ekki átt að vera svona fljótur á mér. Ég treysti því að geta fengið þotu lánaða hjá Tóta eða Gussa en þeir voru báðir úti á þotunum sínum, Maggi þurfti að nota sína þotu eftir hádegi og Glitnisþotan var með einhverja síós og stelpur að spila golf á Jersey. Spila golf!! Það var ekki einn einasti þoturæfill á stæðinu úti í Vatnsmýri. Shitt!

Ég sá allt í einu fyrir mér að þurfa að fljúga með áætlunarrellu til London! Það er hrikalegt fyrir stórmógúl í útrásinni, mann sem undirklassa­smápeð í íslensku viðskiptalífi eiga að óttast og virða. Ég hringdi í Iwaunt Moore og sagði að þotan mín væri í klössun, það yrði að fresta fundinum. Það var útilokað. Fjárfestarnir voru lagði af stað í sínum einkaþotum frá Jersey. Búnir með sínar 18 holur geri ég ráð fyrir! Ho-ho!

Mallí spurði hvers vegna ég væri svona fölur. Ekki skrýtið að ég væri fölur!! Það er vissulega auðveldara að láta sig hverfa í Leifstöð eftir að hún var stækkuð, maður sleppir lánsinu, skýst inn á klósett ef maður sér einhvern, sem maður vill ekki hitta, og hleypur síðastur um borð. En það sér mann alltaf einhver og flugfreyjurnar þekkja alla íslenska stórkalla í sjón. Neyðarlegast samt að koma á fund með mógúlum í London í leigulímúsínu frá Heathrow. Maður missir allt o þorítí. Þeir taka svoleiðis smákall ekki alvarlega.

Iwaunt Moore hringdi eftir hádegi og sagðist sjá til fjárfestanna niðri á Park Lane. Ég bað hann að segja þeim að ég hefði verið kvaddur skyndilega á fund í Sjálfsmínbanka til að ganga frá stóru láni sem ég ætlaði að nota í yfirtökutilboðið fyrir Asian Viking Ventures. Ég bauð þeim gistingu á Hilton við hliðina. Þeir féllust á að bíða til morguns. Gussi er búinn að lofa mér þotunni sinni upp á æru og trú. En ég verð ná mér í einkaþotu. Þegar ég samþykki lánið handa mér í fyrramálið bæti ég við það fyrir þotu.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×