Skoðun

Lífeyrissjóðsmál aldraðra

Velferðarmálin og þar á meðal málefni aldraðra koma í hlut Samfylkingarinnar í hinni nýju ríkisstjórn. Þessi mál eru nú færð undir félagsmálaráðuneytið. Hér á árum áður heyrðu almannatryggingarnar undir félagsmálaráðuneytið og þá lagði Alþýðuflokkurinn alltaf áherslu á að fá það ráðuneyti. Hér hefur málum því verið skip- að á sama hátt og þá gerðist. Það er vel. Jóhanna Sigurðardóttir er félagsmálaráðherra í nýju stjórninni. Ég treysti henni vel fyrir þessum málum.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir: Ríkisstjórnin leggur áherslu á að styrkja stöðu aldraðra og öryrkja. Á grundvelli þessa ákvæðis getur Jóhanna unnið og leyst lífeyrismál aldraðra. Í kosningabaráttunni lagði Samfylkingin fram róttæka stefnuskrá um málefni aldraðra en þar sagði að Samfylkingin vildi leiðrétta lífeyri aldraðra, þar eð hann hefði dregist aftur úr launum annarra hópa í þjóðfélaginu. Í stefnuskránni sagði: Samfylkingin vill leiðrétta þetta misrétti. Og ennfremur sagði, að Samfylkingin vildi, að lífeyrir aldraðra dygði fyrir framfærslukostnaði eins og hann væri metinn í neyslukönnun Hagstofu Íslands. Ég treysti Jóhönnu fyrir þessu.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir, að draga eigi úr tekjutengingum og skerðingum bóta í almannatryggingakerfinu.Þetta stefnumið er í samræmi við baráttumál samtaka eldri borgara og Samfylkingarinnar. Ríkisstjórnin vill afnema tekjutengingu launatekna 70 ára og eldri við lífeyri almannatrygginga og stefna að hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna fyrir aldurshópinn 67-70 ára. Það er ekki gott að ríkisstjórnin búi til ný aldursmörk fyrir ellilífeyrisþega. Fólk fer á eftirlaun 67 ára og margir hætta þá í vinnu. M.a. hafa þeir hætt vegna þess að svo mikið hefur farið í skatt af tekjum þeirra og vegna mikillar skerðingar á tryggingabótum þeirra. Eftir að ellilífeyrisþegar hætta að vinna getur verið erfitt að byrja á ný síðar. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir, að afnema eigi skerðingar tryggingabóta vegna launatekna maka, 70 ára og eldri. Hér eru einnig búin til ný aldursmörk.

Ellilífeyrisaldur er 67 ára og því á að afnema skerðingu tryggingabóta vegna launatekna maka frá 67 ára aldri en ekki síðar. Einnig segir í stefnuyfirlýsingunni, að skoða eigi hvort undanskilja megi hluta af lífeyrissjóðstekjum eldri borgara skerðingum í almannatryggingakerfinu. Það var í kosningastefnuskrá Samfylkingarinnar, að lífeyrisþegar ættu að geta fengið 100 þúsund króna lífeyrissjóðstekjur án skerðingar tryggingabóta. Verður að ætla að félagsmálaráðherra reyni að tryggja það.

Samfylkingin lagði áherslu á það fyrir kosningarnar að eyða biðlistum eldri borgara eftir hjúkrunarrými og að tryggja sem flestum einbýli á hjúkrunarheimilum. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir, að hraða beri uppbyggingu 400 hjúkrunarrýma fyrir aldraða og að einbýlum verði fjölgað. Einnig á að efla sólarhringsþjónustu fyrir aldraða og auka einstaklingsmiðaða þjónustu.

Það eru mörg góð ákvæði í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar en önnur vantar, t.d. um að lækka skatt á lífeyristekjum. Ekki ætti að vera hærri skattur en 10% á þann hluta lífeyrissjóðstekna, sem telst fjármagnstekjur. Að þeirri breytingu ber að vinna.



Höfundur er viðskiptafræðingur.





Skoðun

Sjá meira


×