Heilsa

Liði illa að vera Bjarni Ármanns

Sirrý segir að hún myndi gjarnan vilja labba um Norðurmýrina og segja Guðrúnu Evu sögur af æskuslóðunum svo hún gæti fest þær á blað.
Sirrý segir að hún myndi gjarnan vilja labba um Norðurmýrina og segja Guðrúnu Evu sögur af æskuslóðunum svo hún gæti fest þær á blað.
Þið hafið kannski hist áður eða hvað?

Sirrý: Nei, ég held ekki.

Guðrún Eva: Jú, ég kom í þáttinn til þín einu sinni. Sat á palli úti í sal.

Sirrý: Ha, komstu í þáttinn til mín? Bíddu við. Og talaðirðu þá ekkert?

Guðrún: Jú, þú varst að fjalla um hamingjuna. Þá var ég búin að skrifa bókina Fyrirlestur um hamingjuna. Það eru sennilega um fimm ár síðan.

Sirrý: Ég er nefnilega mjög mannglögg en það er oft þannig að ef maður sér fólk oft í fjölmiðlum heldur maður stundum að maður hafi bara séð það þar.

Guðrún: En þetta var ógleymanlegt fyrir mig því ég var mjög óvön að koma fram í sjónvarpi og djöfull var ég stressuð!

Sirrý: Mér finnst það einmitt alltaf svo merkilegt að fólk upplifir sig svo stressað en svo sést það ekki neitt á fólkinu og enginn veit af því nema það sjálft. En ef ég á að vera hreinskilin hef ég fylgst með Guðrúnu Evu síðan bækurnar hennar fóru að koma út. Upphaflega keypti ég bækurnar hennar til að gefa því ég fann svo mikinn áhuga hjá þeim ungu mönnum sem voru í kringum mig á bókunum hennar. Sjálf hef ég aðeins gluggað í þær en ekki lesið. Raunveruleg störfEn þú gengur ekkert með neinn rithöfund í maganum Sirrý – og þú jafnvel sjónvarpsstjörnu í þínum draumum, Guðrún Eva?

Guðrún: Mig dreymdi um að leika í tónlistarmyndbandi á yngri árum. En nei, ekki sjónvarpsstjarna. Ég held að starf hennar sé svo álagsþrungið. Ég er nefnilega dálítill letingi. Mitt starf felst í því að sitja á náttbuxunum fram eftir degi og standa öðru hvoru upp til þess að ná mér í te.

Sirrý: Ég held að þetta sé rétt metið hjá henni. En það eru líka margir skemmtilegir kostir við starfið. Það má líka hafa það í huga að það er líka álagsþrungið að vinna einhæf störf, sitja til dæmis við símaborð einhvers staðar og þurfa að svara alltaf, hvort sem það hentar manni eða ekki. En júhú, mig hefur sko heldur betur langað til að verða rithöfundur. Og ég ber næstum óútskýranlega virðingu fyrir þeim, fyllist næstum því lotningu yfir starfi þeirra. Það mun örugglega þvælast fyrir mér ef það kemur að því að ég fer að skrifa. Ég hef nú reyndar einu sinni verið komin það langt að ég var byrjuð að skrifa bók eftir að bókaforlag hringdi í mig. Ég trúi því eiginlega að skrifin hafi einfaldlega ekki átt að gerast þarna því það var alltaf eitthvað að koma upp á sem tafði verkið. En jú, ég geng með bók í maganum.

Guðrún: En spennandi! En þessi lotning – hvaðan er hún komin?

Sirrý: Jú, ég held að málið sé að í þessum peningaheimi sem við lifum í í dag skilur maður varla hvernig allar þessar upphæðir verða til og hvernig þessi eða hinn fær 300 milljónir í vasann á einni morgunstund. Sjómennirnir sækja auðæfi sín út á haf og maður skilur það – og rithöfundurinn sækir sinn auð í kollinn á sér og býr til eitthvað áþreifanlegt. Þessi auðæfi getur hvert mannsbarn skilið og þetta eru raunverulegir hlutir. Og það er meira en segja má um margt annað.

Guðrún: Þetta þykir mér merkilegt að heyra – að þú talir um þetta starf eins og það væri áþreifanlegt. Mér hefur alltaf þótt dálítið erfitt að vinna að einhverju árum saman án þess að hægt væri að þreifa á árangrinum fyrr en prentsmiðjan er búin að efnisgera hann.

Fyrst við erum að ræða gróða og upphæðir sem enginn skilur - Starfslokasamningur Bjarna Ármannsssonar, fyrrverandi forstjóra Glitnis, hljóðar upp á 800 milljónir. Hvað segið þið við slíkum starfslokasamningum?

Guðrún: Maður hristir bara hausinn og fær á tilfinninguna að það sé verið að múta þessum mönnum til að hætta að vinna.

Sirrý: Þetta er bara eitthvað sem venjulegt fólk nær ekkert upp í. Það er allt gott um Bjarna að segja en þetta er eitthvað sem maður skilur ekki. Þeir hljóta líka margir hverjir að vera með hnút í maganum og bullandi stressaðir yfir því að fá svona svimandi háar upphæðir í vasann. Þeir hreinlega hljóta að spyrja sig: Bíddu, er vinnan mín svona mikils virði? Legg ég svona rosalega mikið af mörkum? Svona miklu meira en flestir aðrir? Ég er allavega þannig gerð að ég myndi spyrja sjálfa mig hvort ég væri svona mikils virði.

Guðrún: Já, manni myndi líða hálf undarlega. Ég ætla rétt að vona að maður gerði eitthvað gáfulegt við peningana – en færi ekki að haga sér eins og api.

Sirrý: Ég held að þessir auðmenn okkar sem hafa hagnast svona gríðarlega mikið – verði að passa mjög vel upp á sína jarðtengingu. Að þetta fari ekki bara allt úr böndunum. Ófyndinn Nói SiríusÚr böndunum segið þið. Teljið þið að meðferð valdsins hafi farið eitthvað úr böndunum þegar tengdadóttur Jónínu Bjartmarz var veittur ríkisborgararéttur hér fyrir stuttu síðan? Hver eru ykkar viðbrögð við ásökunum um spillt vald?

Guðrún Eva: Ég er ekki búin að koma mér upp það öflugum innri heimsborgara að þetta fái mikið á mig. Það hefur ekki verið sýnt fram á að Jónína hafi beitt sér sérstaklega í þessu máli. Ef þetta er spilling þá er þetta einhver saklaus útgáfa af henni.

Sirrý: Ég held að Jónina sé allt of klár og í of hárri stöðu til að hún hafi komið eitthvað nálægt þessu. Hún áttar sig alveg á því að hún á ekki að setja fingrafar sitt á svona hluti. Þannig að ég held hún hafi ekkert skipt sér af þessu. Ég er búin að heyra sitt hvað um þessa stúlku – þetta er afburðamanneskja sem talar íslensku reiprennandi. Hvert mál er einstakt og hún virðist framúrskarandi manneskja.

Guðrún: Þjóðarsálin á það til að verða dálítið hysterísk.

Sirrý: Við þurfum hinsvegar að fá bara fleira fólk hingað inn. Það er til fullt af góðu fólki, afburðafólki, sem vill koma hingað til að vinna. Við erum vinnusöm þjóð og eigum að halda þeirri stefnu að hleypa fólki hingað inn sem er með sömu orku og við. En mér finnst öðru máli gegna um það þegar fólk kemur hingað með hatt, spilar einhverja smá laglínu til málamynda og vill fá pening fyrir.

Guðrún: Já, ég veit það ekki, mér finnst ánægjulegt að sjá nýju sígaunafjölskylduna okkar spila úti á götu – þá líður mér eins og ég búi í borg. Þau spila líka eins og englar.

Sirrý: Já, sonur minn var með mér úti í búð um daginn og vorkenndi þessu fólki sáran sem þurfti að vera úti að spila í kulda og fengi lítinn pening. Ég missti það út úr mér að þau gætu örugglega fengið vinnu inni, ef þau vildu – í búðinni! En kannski eru það mínir fordómar, ég veit það ekki.

Guðrún: Já, þú meinar svona fordómar fyrir „útivinnandi“ fólki?

Sirrý: Einmitt! Haha!

Hver er fyndnasti Íslendingurinn að ykkar mati og hver er sá ófyndnasti?

Guðrún: Þetta er erfið spurning en ætli það sé ekki hún Kaffi-Gurrí, blaðamaður sem bloggar undir nafninu Gurrihar. Hún er hrikalega fyndin.

Sirrý: Þekkirðu hana?

Guðrún: Eh, hún er reyndar móður­systir mín ...en hún er samt í alvörunni alveg rosalega fyndin! Ég skil ekki hvernig nokkur manneskja fer eiginlega að því að vera svona fyndin nokkrum sinnum á dag.

Sirrý: Ég get ekki nefnt einhvern einn Íslending en núna finnast mér Stelpurnar á Stöð 2 vera fyndnastar.

Guðrún: Já, þær eru æði. Hrikalega flínkar píur.

Sirrý: Þær eru miklu betri en þessar bresku. Ófyndnastur finnst mér Guðni Ágústsson hinsvegar vera.

Guðrún: Mér finnst hann dálítið fyndinn. Annars er ég í svo góðu skapi að ég á erfitt með að blammera einhvern með því að segja að hann sé ófyndinn. En ófyndnasta fyrirtækið er auðvelt að velja – Nói Siríus.

Sirrý: Já, tópasdæmið 1. maí. Ojbarasta!

Guðrún: Já, hvað á maður eiginlega að halda – að þetta fólk sé svona illa innrætt eða bara einfaldlega svona miklir kjánar. Þetta er átakanlegasti kjánahrollur ársins.

Sirrý: Hjartanlega sammála – ég mun ekki kaupa mér Tópas. Allir orðnir trúaðirFyrst þið eruð aðeins farnar að ræða við Skúla fúla sem býr í okkur öllum: Hvað er það þá sem fer mest í taugarnar á ykkur við íslenskt samfélag?

Sirrý: Við erum mjög nýrík og við vitum ekki hvað nægjusemi er. Að vísu er hluti þjóðarinnar samt farinn að sjá fegurðina í einfaldleikanum og nægjuseminni. Svo erum við hrikalegt dellufólk og þurfum öll að vera eins.

Guðrún: Já, það er hjarðeðlið í okkur. Eða kannski er hægt að skella skuldinni á skólakerfið, það vantar talsvert upp á að fólk hugsi sjálfstætt.

Ég vil fá barnaheimspeki inn í leik- og grunnskólana. Það gæti orðið stórkostleg breyting til batnaðar.

Sirrý: Ég man einmitt eftir því þegar maður var lítill og fór á svona starfsvöll og fékk að smíða úr spýtum alls kyns hús. Þá var einn að byggja kirkju, annar var að byggja blokk, einn byggði sveitabæ og svo framvegis. Kofarnir voru svo málaðir í alls kyns kaótískum litum og útkoman var öll skökk og skemmtileg þar sem engar tvær byggingar voru eins. Þessir starfsvellir í dag panta kofana forsniðna á vellina og það eina sem krakkarnir þurfa að gera er að setja þá saman. Sem sagt: Engin sköpun. Já, rétt eins og um IKEA-húsgagn væri að ræða. Og þeir eru ekki málaðir og eru því allir eins. Þetta er alveg gjörsamlega gelt.

Guðrún: Svo er þetta líka svo hrikalega öruggt og tryggt. Enginn má meiða sig á spýtu – en það er einmitt það sem æskan snýst um – að fá að gera eitthvað hættulegt. Ævintýrið gengur út á það – þannig að í raun er búið að taka allt það skemmtilega úr þessu.

Að lokum. Er eitthvað meira sem þið hafið sérstaklega tekið eftir að hafi breyst í umhverfinu síðustu tíu árin?

Guðrún: Jepparnir eru orðnir fleiri en um leið er umhverfisvitundin orðin meiri. Það eru svolítið undarlegar andstæður. Svo hef ég líka tekið eftir því á allra síðustu árum að það er alltaf meira og meira af fólki sem segist trúa á guð. Að segja slíkt fyrir tíu árum var nærri því tabú.

Sirrý: Já það er held ég alveg rétt. Svona hefði fólk ekki verið að ræða fyrir tíu árum. Það er kannski einhver þorsti í eitthvað dýpra þarna. Guðrún: Já, gæti hugsanlega verið andlegt hungur. Maður sér þetta jafnvel í blöðunum að fólk er að koma út úr skápnum trúarlega.

Sirrý: Nei – sjáið þið randafluguna þarna?

Guðrún: Það er komið sumar!







×