Viðskipti innlent

Bankarnir á fleygiferð

Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær er Kaupþing komið í hóp 800 stærstu fyrirtækja veraldar á lista Forbes og situr nánar tiltekið í 795. sæti. Þetta er í fyrsta skipti sem íslenskt fyrirtæki kemst á topp eitt þúsund og verður ekki annað séð en að Kaupþing hafi hækkað verulega á listanum miðað við gang bankans það sem af er þessu ári.

Forbes horfir til þátta á borð við markaðsstærð, veltu, hagnað og heildareignir við mat á stærð fyrirtækjanna. Verðmæti Kaupþings hefur aukist um 150 milljarða á árinu og heildareignir hafa án nokkurs vafa hækkað frá áramótum samfara auknum umsvifum. Miðað við vöxt Landsbanks og Glitnis, sem sitja í sætum 1.151 og 1.170, þá má fastlega búast við að minnsta kosti þrjú íslensk fyrirtæki verði kominn í hóp hinna þúsund stærstu að ári.

Enn kenndur við Strauminn

Á meðan hræringar í viðskiptalífinu vekja upp æsispenning í huga sumra geispa aðrir og fletta á næstu síðu. Ekkert skal þó fullyrt um hvort það var áhugaleysið eða bara seinheppnin sem elti blaðamann Húsa og híbýla í heimsókn til Þórðar Más Jóhannessonar og eiginkonu hans, Nönnu Bjargar Lúðvíksdóttur. Heimili þeirra Þórðar og Nönnu er glæsilegt og á vel heima á síðum nýjasta tölublaðs tímartisins.

Þórður er hins vegar titlaður forstjóri Straums-Burðaráss á forsíðunni, en eins og kunnugt er stýrir hann nú margmilljarða fjárfestingarfélaginu Gnúp. Líkast til hefur hann lítinn áhuga á að leggja nafn sitt við fjárfestingarbankann. Þaðan var hann látinn fjúka síðasta sumar í tengslum við eitt dramatískasta mál sem skekið hefur íslenskt viðskiptalíf. Þar áttust við stórfjárfestarnir Magnús Kristinsson og Björgólfur Thor Björgólfsson.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×