Bakþankar

Efnislegt

Pólitík er oft skrýtin skrúfa eins og sést til dæmis í hinu sérstaka auðlindaákvæðismáli. Framsóknarmenn hótuðu semsagt að sprengja ríkisstjórn ef ákvæði um sameign þjóðarinnar á sjávarauðlindum yrði ekki fest í stjórnarskrá.

Sjálfstæðismenn spyrntu við fótum, þar til löglærðir menn bentu á að líklega væri þetta ákvæði merkingarlaust, og samþykkktu þá að spyrða ákvæðinu við hornstein íslenskrar stjórnskipanar, það er jú merkingarlaust.

Meðan Framsókn og Sjálfstæðisflokkur eru komin aftur í sleik klóra ófáir sér í höfðinu yfir þessu máli; löglærðu mennirnir í Lögbergi gera gott betur og rífa í hár sitt og skegg. Rökhugsun landsmanna er þó ekki það eina sem hefur verið misboðið í þessu máli; stjórnmálamenn, lögmenn og fjölmiðlar slógu tvær flugur í einu höggi og léku málvitund okkar grátt í leiðinni. Einn morguninn hlustaði ég til dæmis á sjávarútvegsráðherra ræða auðlinda-ákvæðið á Morgunvakt Rásar eitt. Í einni og sömu andrá tókst honum að segja að þetta mál væri í „efnislegum undirbúningi" í stjórnarskrárnefnd, „efnislegri meðhöndlun" væri ekki lokið, málið biði því enn „efnislegrar úrvinnslu" og að „efnisleg vinna" ætti ekki að fara fram í þingsölum heldur ætti að bíða þar til málið hefði verið lagt fram „efnislega".

Þetta var árla morguns og ég viðurkenni að ég var ekki sérlega vel undir það búinn að hlusta á röklegt heljarstökk af þessu tagi. Einhverra hluta vegna fór ég að hugsa um blaðagrein sem ég las einhvern tímann og fjallaði um að sökum sívaxandi samkeppni við atvinnulífið veldust sífellt lakari manngerðir til þátttöku í stjórnmálum. Ég var þó fljótur að hrista þá hugsun af mér; það á fjandakornið varla við á Íslandi.

Eina rökrétta ályktunin sem ég gat dregið af orðum ráðherrans var að fyrir utan hefðbundin þing- og nefndarstörf þurfa alþingismenn að vinna ókjör af „óefnislegri vinnu". Og fyrst ekki er vikið einu orði að henni í stjórnarskránni hlýtur að vera um sjálfboðastarf að ræða. Hin „óefnislega vinna" felst mögulega í því að ákveða hvers konar pappír á að prenta lögin á og hvaða leturgerð á að nota. Þegar það er afgreitt á bara eftir að ákveða hvað stendur í sjálfum lögunum.

Því er ekki að neita að hversdagslegustu hlutir hljóma ábúðarmeiri og mikilvægari þegar orðum eins og „efnislegt" hefur verið skeytt framan við. Kannski gefur það góða raun ef foreldrar biðja börnin sín um að ljúka við efnislegt innihald grautarskálanna. Eða krakkinn starir bara á þig eins og þú sért fábjáni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×