Tónlist

Í tilefni Myrkra músíkdaga

Karólína Eiríksdóttir tónskáld
á verk á Myrkum músíkdögum sem flutt verður á tónleikum kvöldsins.
Karólína Eiríksdóttir tónskáld á verk á Myrkum músíkdögum sem flutt verður á tónleikum kvöldsins.

Framlag Sinfóníuhljómsveitar Íslands til Myrkra músíkdaga að þessu sinni er glæsilegir tónleikar þar sem kynnt verða fjögur verk eftir jafnmörg tónskáld. Sveitin flytur, ásamt einleikurunum Guðrúnu Birgisdóttur og Martial Nardeau, verk eftir Karólínu Eiríksdóttur, Herbert H. Ágústsson, Erik Mogensen og Örlyg Benediktsson. Hljómsveitarstjóri er Roland Kluttig.

Tónlistarunnendur kannast við verk Karólínu Eiríksdóttur en hún hefur starfað ötullega að sköpun sinni um árabil. Nýlega frumsýndi Íslenska óperan verk hennar Strengjaleiki en að þessu sinni verður konsert á efnisskránni sem Karolína samdi sérstaklega fyrir einleikarana, hjónin Martial Nardeau og Guðrúnu Birgisdóttur. Hafa þau átt farsælt samstarf við tónskáldið sem áður hefur samið verk fyrir þau, bæði dúó- og einleiksverk.

Herbert H. Ágústsson stundaði tónlistarnám í Graz og var hornleikari í Fílharmoníuhljómsveitinni í Graz á árunum 1945 til 1952 en þá kom hann til Íslands og gerðist fyrsti hornleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Verkið „Concerto breve“ samdi Herbert árið 1965 en Sinfóníuhljómsveit Íslands lék verkið fyrst árið 1971.

Örlygur Benediktsson hóf tónlistarnám í Hafralækjarskóla, lærði síðan hjá tréblásarameisturum Tónlistarskólans í Reykjavík og að því loknu hóf hann nám í tónfræðadeild skólans. Framhaldsnám sitt stundaði hann við rússnesku Ríkiskonservatoríuna í St. Pétursborg. Tónverk hans „Eftirleikur“ er fyrsta verkið sem Sinfóníuhljómsveit Íslands flytur.

Tónleikarnir hefjast að vanda kl. 19.30 í Háskólabíói.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×